133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:59]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegi forseti. Í rauninni fjallar sú umræða sem hér fer fram um skyldur ríkisvaldsins gagnvart samfélaginu og þegnum þess. Í þeirri umræðu er jafnræðisreglan gjarnan hinn undirliggjandi tónn, jafnræðisreglan gagnvart þegnum og atvinnustarfsemi.

Það eru auðvitað kostir og gallar við að búa á hverjum stað. Það er ekki bara kostnaður sem fólk horfir á heldur líka hin almennu lífsgæði í samfélaginu á hverjum stað, streita, afþreying, atvinnumöguleikar og þar fram eftir götunum eða hinn mikli fjölbreytileiki sem einkennir samfélag okkar.

Það er líka ljóst að það er ekki ríkisvaldið sem mun eitt og sér halda uppi byggð á einstökum stöðum. Frumkvæðiskrafturinn hlýtur alltaf að koma að koma fyrst og fremst frá heimamönnum en ríkið getur stuðlað að byggð. Þannig má halda því fram að ríkisvaldið sé stærsti vinnuveitandinn á höfuðborgarsvæðinu með allar sínar stofnanir staðsettar þar og ver til þeirra milljörðum króna ár hvert og heldur úti mörgum þúsundum starfa.

Snar þáttur hins vegar í lífsgæðum fólks og þjónustu er möguleikinn á að ferðast. Þar eru aðstæður ólíkar. Eyjasamfélög hafa sérstöðu í þeim efnum. Þannig verða t.d. Vestmannaeyingar á sumrin að sæta lagi til að komast ferða sinna á eigin bílum. Ef við berum saman ferðakostnað fimm manna fjölskyldu, annars vegar frá Norðurlandi eða Vesturlandi til þess að fara suður og hins vegar frá Vestmannaeyjum, er alveg ljóst að kostnaður hinna síðarnefndu er allverulega hærri.

Þar brýtur á jafnræðinu og því er ekki óeðlilegt að endurskoða gjaldtöku með ferjum þar sem er heilsársbyggð. Því hefur verið haldið fram að lágmarkskrafa sé sú að ferðakostnaður verði sambærilegur fyrir eyjasamfélögin og aðra á landinu og ég vek athygli á því að fyrir þinginu liggur einmitt þingsályktunartillaga þess efnis. Vænti ég af umræðunni að hún fái góðan stuðning í þinginu og verði vonandi samþykkt áður en þingið fer heim í vor.