133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[14:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er full þörf á því að halda hæstv. ríkisstjórn við efnið í byggðamálum og því er þessi umræða sem sérstaklega snýr að hagsmunum Vestmannaeyja þörf. Vestmannaeyjar hafa vissulega umtalsverða sérstöðu sem langstærsta eyjasamfélagið við Ísland og ólíku saman að jafna hvað stærðir snertir þar sem eru Grímsey, Hrísey og önnur byggð eyjasamfélög, en að sumu leyti og öðru leyti má segja að Vestmannaeyjar eigi margt sameiginlegt með t.d. Vestfjörðum og norðausturhorni landsins hvað varðar langar og dýrar flutningsleiðir, flutningskostnað og áhrif þess á mannlífið að búa við torveldar samgöngur og mikinn kostnað.

Hæstv. ríkisstjórn hefur staðið sig með endemum illa hvað varðar það að efna loforð og fyrirheit um aðgerðir sem lúta að flutnings- og ferðakostnaði í landinu. Það er sama hvort við tölum um fyrirheitin um að lækka flutningskostnað eða þann ferðakostnað sem menn verða að taka á sig t.d. á landsbyggðinni þegar þeir leita læknishjálpar á höfuðborgarsvæðinu. Það er þörf fyrir að samræma gjaldtöku og hafa hana hóflega miðað við aðstæður af því tagi sem Vestmannaeyingar og aðrir eyjarskeggjar byggja og bera það saman við það sem sanngjarnt er gagnvart þeim sem hafa óheftan aðgang að vegakerfinu. Þá verður auðvitað að taka annað óhagræði og óþægindi og tímatöf með í reikninginn þannig að gjaldtaka þarna verður að vera mjög hófleg og Herjólfur er vegur Vestmannaeyinga rétt eins og Sæfari er vegur Grímseyinga. Skipið er búið að þjóna í meira en 12 ár og er búið að gera það vel. Það var að vísu vannýtt lengi vegna þess að áætlun var alls ekki jafntíð og hún hefði þurft að vera en nú er kominn tími á að huga að endurnýjun þess og það ber að sjálfsögðu að gera.

Allt hangir þetta auðvitað saman. Fjárhagur og aðstaða sveitarfélagsins, aðstæður hins almenna atvinnulífs, aðgerðir á sviði byggðamála og jöfnunaraðgerðir. Þessi ríkisstjórn, frú forseti, hefur haft 12 ár til að gera eitthvað af viti í byggðamálum. Það hefur látið á sér standa. Nú held ég að sé fullreynt.