133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[14:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Við erum að ræða samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar og Vestmannaeyja og þá snýst það alltaf um það að hver staður og hvert samfélag nýti landkosti sína og sérstöðu. (Gripið fram í: Og sína ráðherra.) Það er auðvitað óumdeilanlegt að Vestmannaeyjar hafa sérstöðu og það er einkennilegt að það skuli verða sérstakt umræðuefni hjá hv. þingmönnum að slíkt sé viðurkennt. Vestmannaeyjar hafa nýtt sérstöðu sína hvað höfuðatvinnuveginn varðar afskaplega vel í langan tíma og standa þar mjög sterkt eins og öll dæmi sýna. Hins vegar er það þannig að þjóðfélagið breytist mjög hratt og höfuðatvinnuvegirnir eru ekki sömu burðarásarnir og þeir voru áður og þess vegna þurfum við að styðja við það nýja sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Úti á landsbyggðinni er það auðvitað grundvallaratriði að þjónusta hins opinbera sé sterk og að hún veiti íbúunum það öryggi sem þeir þurfa og þá möguleika sem sérstaklega unga kynslóðin þarf á að halda. Það þarf líka fjölbreytni og hluti af fjölbreytninni er að hið opinbera gæti að því þegar valinn er staður fyrir opinber störf að það sé á landsbyggðinni, í eins réttum hlutföllum og mögulegt er. Það hefur verið gert í Vestmannaeyjum að undanförnu, sérstaklega í tengslum við höfuðatvinnuveginn, sjávarútveginn, þar eru starfandi nýendurnýjuð útibú úr sjávarútveginum og ný útibú.

Síðan eru það samgöngurnar. Við sáum í gær samgönguáætlun upp á 103 milljarða kr. sem ættu virkilega að hjálpa til mjög víða á landinu.

Eitt mál var sérstaklega nefnt hérna, það var skipalyftan í Vestmannaeyjum eins og þar væri um eitthvert vandamál að ræða. Vandamálið sem þar er um að ræða er að undanfarin ár hefur ekki verið gert ráð fyrir því að upptökumannvirkin væru styrkt en í dag var tekin út úr nefnd breytingartillaga við frumvarp til hafnalaga sem einmitt gerir ráð fyrir því að hægt sé, frú forseti, að fara í þá aðgerð að styrkja skipalyftuna í Vestmannaeyjum.