133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum. Þetta er 542. mál þingsins á þingskjali 812.

Frumvarp þetta er í öllum aðalatriðum samið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 5/2006, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem Alþingi samþykkti 1. febrúar 2006. Áður hafði þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, ítrekað gert tillögu um skipan nefndar í sama skyni og var á það fallist með tillögu meiri hluta iðnaðarnefndar.

Í bráðabirgðaákvæðinu sem ég nefndi er kveðið á um að iðnaðarráðherra skuli skipa sérstaka nefnd sem geri tillögu um það með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laganna og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin var, í samræmi við bráðabirgðaákvæðið, skipuð fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, þremur fulltrúum frá Samorku og tveimur fulltrúum tilnefndum af iðnaðarráðherra. Nefndin skilaði tillögum sínum í skýrsluformi þann 11. október 2006. Eins og fyrr var nefnt er frumvarpið samið af nefndinni en þó hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar í kjölfar yfirferðar yfir það í iðnaðarráðuneyti og að ósk landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis.

Ef frumvarp þetta verður óbreytt að lögum munu margvíslegar breytingarnar verða á gildandi rétti. Lögin munu hafa í för með sér breytta stjórnsýslu þar sem úthlutun leyfa til rannsókna og nýtingar færist frá iðnaðarráðherra til Orkustofnunar. Eðlilegt þykir að Orkustofnun hafi sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála leyfisveitinga- og eftirlitshlutverk og í frumvarpinu er einnig kveðið skýrar á um eftirlitshlutverk og úrræði stofnunarinnar. Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, sem teknar eru á grundvelli laganna, verður hægt að kæra til iðnaðarráðherra.

Lagt er til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin munu einnig ná til nýtingar á vatnsafli til raforkuframleiðslu auk jarðhita.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að forræði yfir því hvort auðlindir í jörðu og vatnsafl í eignarlöndum verði rannsakað eða nýtt verður alfarið hjá viðkomandi fasteignareiganda og honum er heimilt að semja um rannsóknir og nýtingu við þá aðila sem hann helst kýs, þó að því gefnu að þeir uppfylli önnur lagaskilyrði og afli annarra tilskilinna leyfa. Í þjóðlendum og á ríkislandi þarf leyfi Orkustofnunar til rannsókna og nýtingar, sem og heimild þess handhafa ríkisvalds sem fer með forræði á viðkomandi svæði, þ.e. forsætisráðherra í þjóðlendum og landbúnaðarráðherra á ríkisjörðum.

Einnig er lagt til að lögfestar verði verklagsreglur um hvernig staðið skuli að afgreiðslu og vali milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á auðlindum í jörðu og vatnsafli til raforkuframleiðslu í þjóðlendum og landi í ríkiseigu. Auglýsa skal eftir umsóknum um leyfi til rannsóknar og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli á eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum og setja lágmarksskilyrði um fjárhagslegt bolmagn og þekkingu umsækjenda.

Að jafnaði verður skylt að taka gjald fyrir nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls í þjóðlendum og landi í ríkiseigu. Ef fleiri en einn sækja um leyfi skal hagkvæmasta tilboði tekið, en hagkvæmasta tilboð er það boð sem er hæst að fjárhæð og í bestu samræmi við þær forsendur sem settar hafa verið fram í gögnum, þar með talið með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Í ákvæðum til bráðabirgða er að finna tillögur er snúa að mörkun framtíðarstefnu um nýtingu og verndun auðlinda í jörðu og vatnsafls. Lagt er til að iðnaðarráðherra skipi starfshóp sem hafi það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls. Áætlunin mun sýna á hvaða svæðum verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Umhverfisráðherra mun skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Verndaráætlunin mun sýna á hvaða svæðum ekki verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Gert er ráð fyrir því að báðir starfshóparnir skili tillögum sínum til forsætisráðherra og hann muni skipa sérstakan starfshóp sem hafa mun það hlutverk að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt verði fram á haustþingi 2010.

Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi er heimilt, að aðgættum öðrum lagaskilyrðum, að veita nýtingarleyfi þeim rannsóknarleyfishöfum sem við gildistöku laga þessara hafa fengið útgefið rannsóknarleyfi með fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi verður jafnframt heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta. Í umhverfisflokkum a og b í rammaáætluninni eru þeir hugsanlegu virkjunarkostir sem minnst umhverfisáhrif eru talin hafa. Þar til verndar- og nýtingaráætlunin hefur tekið gildi verður hins vegar ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á öðrum kostum til raforkuöflunar nema að undangengnum rannsóknum og mati og með samþykki Alþingis.

Eins og fyrr hefur komið fram er frumvarp þetta samið af nefnd iðnaðarráðherra en þó hafa verið gerðar breytingar í kjölfar yfirferðar yfir frumvarpið í iðnaðarráðuneyti og að ósk landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis.

Í fyrsta lagi mun samkvæmt tillögu umhverfisráðuneytis gerð breyting á verklagi við gerð verndar- og nýtingaráætlunar. Starfshópurinn sem skipaður verður á grundvelli bráðabirgðaákvæðis I í frumvarpinu mun einungis hafa það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls, en í tillögu nefndarinnar var gert ráð fyrir að starfshópurinn mundi móta eina heildstæða verndar- og nýtingaráætlun. Áætlunin um nýtinguna mun sýna á hvaða svæðum verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Einnig hefur samsetningu starfshópsins verið breytt á þann hátt að nú er gert ráð fyrir að í starfshópnum verði auk fulltrúa allra þingflokka tveir fulltrúar iðnaðarráðuneytis, einn fulltrúi landbúnaðarráðuneytis, tveir fulltrúar umhverfisráðuneytis, einn fulltrúi Samorku og einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, en í tillögu nefndarinnar var gert ráð fyrir að starfshópurinn yrði skipaður fulltrúum allra þingflokka, auk fulltrúa frá forsætisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun, Íslenskum orkurannsóknum, náttúruverndarsamtökum, Samorku og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Umhverfisráðherra mun hins vegar skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Verndaráætlunin mun sýna á hvaða svæðum ekki verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Starfshóp umhverfisráðherra munu skipa fulltrúar allra þingflokka eins og í hinum hópnum, tveir fulltrúar umhverfisráðuneytis, einn fulltrúi landbúnaðarráðuneytis, tveir fulltrúar iðnaðarráðuneytis, einn fulltrúi umhverfisverndarsamtaka og einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þessi breyting felur í sér að í stað þess að einn starfshópur undir forustu forsætisráðherra móti eina heildstæða verndar- og nýtingaráætlun munu þrír starfshópar sinna þessu verkefni. Iðnaðarráðuneyti mun stýra starfshópi sem móta mun áætlun um nýtingu og umhverfisráðuneyti mun stýra starfshópi sem móta mun áætlun um verndun. Gert er ráð fyrir að báðir starfshóparnir skili tillögum sínum til forsætisráðherra og hann skipi starfshóp sem hafa muni það hlutverk að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp sem lagt verði fram á haustþingi 2010.

Að ósk umhverfisráðuneytis hefur verið felld út skilgreining á meginreglum umhverfisréttar í 2. gr. Þess í stað mun umhverfisráðherra leggja fram frumvarp um meginreglur umhverfisréttar og er lagt til að vísað verði til ákvæða þess frumvarps í 14. gr. og í 15. gr. þess frumvarps sem hér er lagt fram. Í 14. gr. er einnig bætt inn ákvæði um að við veitingu nýtingarleyfa í eignarlöndum ríkisins og þjóðlendum skuli þess sérstaklega gætt að nýting endurnýjanlegra orkulinda sé sjálfbær.

Að beiðni landbúnaðarráðuneytis er lagt til að landbúnaðarráðuneyti fái fulltrúa í starfshópunum tveimur sem móta eiga nýtingaráætlun og verndaráætlun, samanber ákvæði til bráðabirgða I og II.

Í 3. gr. frumvarpsins hefur verið bætt við ákvæði um að leita skulu umsagnar umhverfisráðuneytis við veitingu rannsóknarleyfa og í 6. gr. er bætt við ákvæði um sambærilega umsagnarumleitan áður en nýtingarleyfi er veitt.

Bætt er við ákvæði um gjaldtöku fyrir eftirliti með framkvæmd laganna til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir slíkri gjaldtöku.

Í öðru lagi er að ósk umhverfisráðuneytis gerð sú breyting að skilgreining á meginreglum umhverfisréttar í 2. gr. er felld út úr frumvarpinu. Þess í stað mun umhverfisráðherra leggja fram frumvarp um meginreglur umhverfisréttar og er lagt til að vísað verði til ákvæða þess frumvarps í 14. gr. og í 15. gr. þess frumvarps sem hér er lagt fram. Í 14. gr. er einnig bætt inn ákvæði um að við veitingu nýtingarleyfa í eignarlöndum ríkisins og þjóðlendum skuli þess sérstaklega gætt að nýting endurnýjanlegra orkulinda sé sjálfbær.

Hæstv. forseti. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum telur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að útgjöld Orkustofnunar muni aukast um 15 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008 vegna nýrra verkefna stofnunarinnar auk þess sem 10 millj. kr. tímabundinn kostnaður muni falla á árin 2008 og 2009 vegna starfshópa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra sem móta eiga fyrrnefndar áætlanir um nýtingu og verndun auðlinda í jörðu og vatnsafls.

Hæstv. forseti. Samfélag okkar, hagkerfið og þjóðlífið allt, hvílir á þeirri forsendu að auðlindir lands og lagar séu nýttar af skynsemi, ráðdeild og virðingu. Nú sem fyrr stefna íslensk stjórnvöld að ábyrgri nýtingu náttúruauðlindanna með fullri aðgát og um leið er þetta stefna varúðar, virðingar og verndar. Ástæða er til að vekja athygli á því að með þessu frumvarpi verður það að skyldu að rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi verði boðin út og menn greiði gjald fyrir hvort leyfi um sig. Skylt verður einnig að menn greiði gjald fyrir nýtingu auðlindar í þjóðlendu eða í ríkisjarðeignum.

Auk þess geta aðilar eins og nú samið um gjald fyrir nýtingu auðlindar þegar um eignir einkaaðila er að tefla. Hér er þannig í raun um auðlindagjald á orkusviði um að ræða. Um það mál hafa lengi verið talsverðar umræður en þessi tilhögun í frumvarpinu er í almennu samræmi við tillögur auðlindanefndar sem starfaði undir forustu dr. Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra, um síðastliðin aldamót. Einnig hafa forustumenn í íslenskum iðnaði rætt slíkar hugmyndir, m.a. Víglundur Þorsteinsson forstjóri fyrir nokkru. Erlendis er fengin athyglisverð reynsla á þessu sviði. Má þar nefna Alaskabúa sem mynda sérstakan auðlindasjóð í eigu landsmanna sem þeir nýta til þjóðþrifamála og endurgreiða jafnvel úr til almennings. Þetta kann að reynast mikilsvert framtíðarmálefni hér á landi líka.

Með frumvarpi þessu er leitast við að leggja grunn að sannkallaðri þjóðarsátt, sátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar með skipan starfshópa sem móta eiga heildstæða verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl á Íslandi. Eins og fyrr hefur komið fram er gert ráð fyrir að verndar- og nýtingaráætlunin verði mótuð í samráði við alla helstu hagsmunaaðila og á þann hátt er einnig leitast við að stuðla að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar um þessi mikilvægu málefni.

Hæstv. forseti. Ég veit að ég þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt það mál er sem hér er til umræðu. Hér eru mörkuð mikilvæg tímamót og tekin stefna til framtíðar að víðtækri þjóðarsátt um málefni sem snertir alla þjóðina og farsæld hennar.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar.