133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að hér sé mikilsvert mál á ferðinni. En hæstv. iðnaðarráðherra viðhafði orðin „víðtæk þjóðarsátt“ um málið og talaði um það eins og málið væri lausn á öllum þeim vandamálum sem þjóðin hefði rætt í sambandi við orkunýtingu og náttúruvernd á undanförnum missirum. Það er of langt gengið. Hér var að störfum nefnd sem skilaði þessari tillögu. Hún hafði afmarkað hlutverk og gat ekki tekið á þeim málum sem þegar voru í pípunum, eins og sagt er. Í tillögunni er því ekki fólgin lausn á hinum stóru ákvörðunum sem varða stóriðju í landinu eða aðra slíka hluti. Þess vegna geta menn ekki talað um hana sem víðtæka þjóðarsátt nema með málinu fylgi eitthvað meira.

Svo langar mig líka að upplýsa hæstv. iðnaðarráðherra um það, af því að hann orðaði það þannig að hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra hefði ítrekað flutt tillögur um nefnd af því tagi sem þarna starfaði, að það er ekki rétt. Hæstv. iðnaðarráðherra flutti einu sinni slíka tillögu. Hún fylgdi máli sem var um auðlindir í jörðu. Það mál náði ekki fram að ganga en iðnaðarnefnd flutti þá tillögu um þessa nefndarskipan.

Hæstv. iðnaðarráðherra tók það frumvarp sem iðnaðarnefnd flutti þá en kippti út úr því tillögunni um að skipa þessa nefnd. Það þurfti miklar umræður á Alþingi sem voru kallaðar málþóf til að ná því fram að þessi nefnd yrði skipuð. Það er þess vegna ástæða til að upplýsa hæstv. iðnaðarráðherra um málið en hann hefur (Forseti hringir.) auðvitað ekki fylgst með því á þeim tíma.