133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:34]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé einfaldlega ekki nægjanlegt í þeirri stöðu sem uppi er í dag. Það frumkvæði og allur sá framgangsmáti sem er í gangi núna vegna fyrirhugaðra stóriðju- og virkjanaframkvæmda takmarkast að sjálfsögðu af því sem kalla má íslenska og kallað er íslenska ákvæðið í samkomulagi um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar. Þess vegna, þó ekki væri nema út af því, þarf og á að liggja fyrir sérstakt samþykki Alþingis fyrir hverri einustu framkvæmd.

Að hinu leytinu má að sjálfsögðu færa efnahagsleg rök fyrir því að auðvitað eigum við að fresta öllum stóriðjuframkvæmdum á meðan rammaáætlun er unnin og meðan þessi mál liggja ekki almennilega fyrir, og meðan þetta ófremdarástand er uppi í stóriðju- og virkjanamálum eins og við sjáum núna, gífurleg mótmæli við fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í neðri hluta Þjórsár, sem kallaður er. Það verður einfaldlega að staldra við núna, búa til þessa rammaáætlun og með bráðabirgðaákvæði tryggja að alltaf verði að liggja fyrir sérstakt samþykki Alþingis fyrir hverri einustu framkvæmd. Það er ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að búa ekki þannig um hnúta að svo sé, þ.e. að alltaf þurfi samþykki Alþingis. Það er fráleitt út í hvaða ógöngur og hvaða óefni stjórnvöld hafa stefnt þessum málum og það er fullkomið ábyrgðarleysi hvort sem litið er til efnahagslegra raka eða umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Það er algert ábyrgðarleysi hvernig íslenska ríkisstjórnin hefur teflt sveitarfélögunum í landinu í blint kapphlaup um þessi mál, það fer allt eftir vilja orkufyrirtækjanna þar að auki. Það er ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að greiða ekki úr þessu máli með því að taka til og samþykkja bráðabirgðaákvæði sem tryggir að alltaf þurfi að liggja fyrir sérstakt samþykki Alþingis.

Ég inni hæstv. iðnaðarráðherra eftir þessu, en eftir því sem hann svaraði hér áðan, þá er einfaldlega ekki nógu langt (Forseti hringir.) gengið.