133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:20]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að hæstv. ráðherra vitni í orð mín og sérstaklega ef hún vitnar í þau í heild sinni. Ég man alveg nákvæmlega þessa umræðu og skoðanir mínar hafa ekkert breyst í þeim efnum. Hæstv. ráðherra hefði þá átt að sjá sóma sinn í að bæta því við sem fylgdi í afstöðu minni að það væri að sjálfsögðu þá og því aðeins að við værum sátt við þá ráðstöfun orkunnar sem í hlut ætti og þá er það auðvitað þannig að sumir virkjunarkostir eru betri en aðrir. Það er ekkert launungarmál að ég tel virkjunarkosti í neðri Þjórsá betri en t.d. þá að ráðast inn á, eins og ég sagði, ósnortin svæði eins og Langasjó.

Ég var einmitt að draga upp þessa flokkun og benda á að það væri mikill munur á því hvort menn fullnýta jarðvarmasvæði sem þegar er búið að raska, eins og Kröflu og Nesjavelli, hvort menn virkja í vatnsfalli sem er þegar búið að miðla, sem er þegar búið að taka af sína náttúrulegu rennslishætti. Ég sló nákvæmlega þá fyrirvara sem rétt og skylt er að gera gagnvart hverjum og einum kosti og ég sagði að virkjunarkostir í neðri Þjórsá séu síður en svo án fórna. Það hef ég allan tímann vitað og þekki mætavel af miklu nábýli m.a. við þá.

Hæstv. ráðherra skorar engin mörk með þessu. Þetta er í fullkomnu samræmi við þær áherslur sem við höfum haft. Það er engin þörf á þessum fórnum nú. Við erum algerlega ósammála þeirri ráðstöfun orkunnar sem í hlut á og þar af leiðandi er andstaða okkar algerlega ómenguð við þessar framkvæmdir, fullkomlega.