133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:51]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Jóhann Ársælsson er sammála mér um að þetta frumvarp sem snertir nýtingu auðlinda í jörðu varðar ekki bara sjálfa nýtinguna. Það varðar líka mögulega náttúruvernd á þessum svæðum. Að því leyti er um að ræða frumvarp sem snertir umhverfismál að verulegu leyti.

Tilefni þess að ég segi þetta eru athugasemdir hv. þingmanns við þær breytingar sem voru gerðar á frumvarpinu eftir að nefndin skilaði af sér. Það var nefnilega þannig að þegar nefndin var skipuð á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins þá sátu einungis í henni þingmenn stjórnarflokkanna og síðan fulltrúar Samorku og annarra orkufyrirtækja.

Það var engin aðkoma, hvorki umhverfisráðuneytisins né stofnana umhverfisráðuneytisins, að nefndarvinnunni. Umhverfisráðuneytið og stofnanir þess sáu hvorki frumvarpið né skýrsluna fyrr en eftir að nefndin hafði skilað skýrslu sinni og frumvarpinu eins og það lá þá fyrir. Umhverfisráðuneytið kom ekki að þeirri vinnu öðruvísi en til að veita upplýsingar.

Mér fannst mjög eðlilegt að umhverfisráðuneytið færi yfir frumvarpið út frá því forræði sem umhverfisráðuneytið á að hafa, m.a. á náttúruvernd og náttúruverndaráætlun og skoðaði hvernig tilætlunin samkvæmt frumvarpinu um eina og sömu nýtingar- og verndaráætlunina ætti að koma við það forræði umhverfisráðuneytisins.

Það var mat manna í ráðuneyti mínu að það gengi ekki að ráðuneytið hefði enga aðkomu að þessari sameiginlegu verndar- og nýtingaráætlun undir forsætisráðuneytinu heldur yrði forræðið á náttúruverndinni, náttúruverndarhlutanum að vera á höndum umhverfisráðuneytisins.

Þetta var því gert í mjög góðu samstarfi þessara tveggja ráðuneyta, þ.e. sú breyting sem var gerð að skipta nefndinni upp í tvennt, og þær tvær áætlanir sem bráðabirgðaákvæðin ganga út á og verða lagðar til forsætisráðherra sem skilar frumvarpi, þær eiga að vera nákvæmlega jafnréttháar. Það er til að styrkja náttúruverndina sem lagt er af stað með en ekki til að veikja hana.