133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[15:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hyggst fyrir hönd okkar samfylkingarmanna taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, ítreka nokkuð af því sem hann hefur sagt og ræða það frekar og hugsanlega dýpra en hann komst til í yfirgripsmikilli ræðu sinni um þetta frumvarp. Það má kannski segja að það sé þrenns konar eða ferns konar. Það fjallar um það sem það átti að gera samkvæmt tillögu sem hér var samþykkt og ég man ekki betur en að hæstv. umhverfisráðherra hafi samþykkt með mikilli gleði og ánægju þrátt fyrir þær athugasemdir sem hún gerir núna við hana. Gleði okkar hins vegar var heldur minni þó að við höfum getað bjargað ýmsu frá upphaflegum ákvörðunum eða meiningum eða áformum iðnaðarráðherra á þeim tíma, hæstv. enn þá, um val milli fyrirtækja við framkvæmdir. Um það hefur Jóhann Ársælsson þegar fjallað.

Í öðru lagi fjallar það um framtíðarskipan og þá einkum við orkuvinnslu. Það verður að segja að það eru á margan hátt jákvæðar tillögur og koma að hluta til á móts við tillögur okkar samfylkingarmanna sem við höfum þegar borið fram um svokallaða rammaáætlun um náttúruvernd.

Í þriðja lagi fjallar þetta frumvarp um tilhögun rannsókna og nýtingar, þ.e. um virkjanir á tímanum fram til 2010 og í raun og veru langt fram á annan áratug aldarinnar þótt miðað sé við að framkvæmdir hefjist eða leyfi fáist í síðasta lagi á árinu 2010. Það er skemmst frá því að segja að við gerum miklar athugasemdir við þessar tillögur, erum ósammála þeim í megindráttum eins og sjá má af fyrirvara hv. þm. Jóhanns Ársælssonar í þeirri nefnd sem smíðaði hina fyrri gerð þessa frumvarps.

Í fjórða lagi er með þessu frumvarpi tekin ákvörðun um að breyta engu um forræði yfir þessum málum, það verður áfram hjá iðnaðarráðherra og undirstofnun iðnaðarráðuneytisins, Orkustofnun. Þótt umhverfisráðherra hafi náð ofurlitlum en lofsverðum árangri við að halda í hluta af því landi sem umhverfisráðuneytið á nú að gæta að er það enn þá svo að iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun eru þær stofnanir sem ráða hér landsins gögnum og gæðum að þessu leytinu, og staðfestir þá almennu stefnu ríkisstjórnar þeirrar sem í landinu situr að þegar eitthvað kemur upp sem snertir orkuöflun og orkunýtingu skuli aðrir hagsmunir víkja og að álit iðnaðarráðuneytisins, Orkustofnunar og hagsmunaaðila sem þetta ráðuneyti og Orkustofnun eru í tengslum við eigi að skoða fyrst og síðan annarra.

Í mjög stuttu máli segjum við í þessu frumvarpi já við ýmsum fyrirvörum við þá langtímaskipan sem hér er sýnd en nei við hinum stórfelldu framkvæmdum sem frumvarpið gerir ráð fyrir næstu 5–10 árin, já við þeim hluta sem rímar við tillögur okkar um rammaáætlun um náttúruvernd en nei við tillögum um fyrirvaralausar framkvæmdir samkvæmt leyfum sem hafa verið veitt og við tillögum um að Orkustofnun hleypi í gegn á forsendum sem ekki eru ljósar öllum a-kostum samkvæmt rammaáætluninni um orkunýtingu og þeim b-kostum sem ekki hafa verið gerðar sérstakar athugasemdir við. Við segjum nei við þessum hluta frumvarpsins.

Þá verð ég að segja, forseti, að það er sérkennilegt að hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra skuli kynna þetta frumvarp sem einhvers konar þjóðarsátt. Það verður að skoða þá kynningu, þann skáldskap sem hafður var í frammi á blaðamannafundi um þetta efni og hefur hljómað hér síðustu daga auðvitað í því ljósi að nú eru aðeins þrír mánuðir til kosninga og staða hins sameiginlega stjórnmálaflokks þessara tveggja ráðherra er afar bágborin samkvæmt þeim veðurhorfum sem einar eru til frásagnar um þá stöðu. Það sem hæstv. ráðherrar hafa valið er að setja upp grímu rétt fyrir kosningarnar, nota þessa sameiginlegu vinnu sem hrósverð er í sjálfu sér til að setja upp grímu rétt fyrir kosningarnar og reyna þar með að hylja og fela þann mikla þátt sem þeir eiga í því að þessi ríkisstjórn er frá 1995 einhver helsti umhverfisspillir íslenskrar náttúru. Þótt menn megi passa sig á stórkarlalegum samlíkingum er hægt að bera verk hennar og það sem fram hefur farið í skjóli hennar gagnvart íslenskri náttúru saman við ýmis helstu hallæri af manna völdum eða náttúruafla í sögu landsins. Það að þetta er ekki þjóðarsátt sést best á fyrirvörum sem Jóhann Ársælsson hefur gert í bókun sinni í nefndarstarfinu og á fyrirvörum annarra, m.a. fulltrúa VG sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til hér áður, og það sést líka vel á viðbrögðum bæði Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands sem eru andstæð þessu frumvarpi ef túlkaðar eru yfirlýsingar forustumanna þeirra og hafna því fullkomlega að þetta frumvarp snúist á nokkurn hátt um þjóðarsátt um virkjanir og náttúruvernd.

Um framtíðarskipanina er það að segja í heild sinni að hún líkist tillögum okkar samfylkingarmanna um rammaáætlun um náttúruvernd sem við lögðum fram með öðrum brýnum tillögum um umhverfismál undir samheitinu „Fagra Ísland“.

Við vildum í því efni í fyrsta lagi slá á frest öllum framkvæmdaáformum á náttúrusvæðum, þeim sem mögulegt er að slá á frest, þeim sem ekki eru hafnar eða í startholum þannig að ekki sé hægt að stöðva þær, bæði virkjanaáformum og öðrum framkvæmdaáformum á meðan unnið væri að rammaáætlun um náttúruvernd með rannsóknum og sérstöku mati, en þeirri rammaáætlun — sem heitir það auðvitað eftir annarri rammaáætlun — á að ljúka með því að náttúrusvæðum á Íslandi verður í stórum dráttum skipt í þrennt. Í fyrsta lagi koma verndarsvæði af ýmsu tagi sem sum fá lagavernd strax á Alþingi en önnur koma inn í verndarheildina í áföngum með náttúruverndaráætlunum. Í öðru lagi koma svæði sem nytu svokallaðrar biðverndar, sem við höfum kallað, þar sem framkvæmdir eru ekki leyfðar eða hafðar í lágmarki þangað til sérstökum rannsóknum lýkur eða leyst eru hver þau vandamál sem hamla því að strax sé hægt að flokka þessi svæði. Í þriðja lagi koma svo þau svæði sem njóta lágmarksverndar núverandi lagaramma en verða auðvitað viðfangsefni þeirra sem hyggja á nýtingu af öðru tagi en vernd, t.d. orkunýtingu, og er eðlilegt viðfangsefni rammaáætlunar af því tagi sem nú er í gangi um orkunýtingu, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það eru þau svæði sem hér eru í þriðja lagi nefnd.

Svo að það sé ljóst að við erum ekki að finna upp hjólið í þessu höfum við auðvitað leitað fanga. Meðal fyrirmynda okkar er sú skipan sem kemur ágætlega fram í skýrslu nefndarinnar góðu og er höfð í Noregi um vatnasvið þar en þessi þrískipting er einmitt hliðstæð þeirri sem þar er viðhöfð í ám og vötnum eða vatnsfallslögum þeirra í Noregi sem var niðurstaða þeirra og eins konar þjóðarsátt eftir langvinnt stríð í marga áratugi. Voru þeir þó svo heppnir að hafa aðeins eina auðlind við að glíma í þessu efni, nefnilega vatnsföllin, en ekki a.m.k. tvær eins og við þar sem enginn jarðhiti er í því gamla granítlandi forfeðra okkar.

Smákafli um þá rammaáætlun sem ég minnti á og í gangi er, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Rétt er að menn geri sér grein fyrir því, eins og Jóhann Ársælsson rakti reyndar ágætlega, að þar eru einungis orkusvæði tekin til skoðunar. Þessi orkusvæði eru einungis metin út frá einstökum virkjunaráformum. Matið breytist þess vegna frá einstökum virkjunarkostum til annarra virkjunarkosta þannig að það mat sem menn lesa út úr einstökum svæðum í töflum þeirrar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á aðeins við þær forsendur sem menn gáfu sér þar. Það á við um gæði svæðisins — umhverfisgæði er ég hér einkum að tala um — út frá tilteknum virkjunarkosti. Ef þeim virkjunarkosti er breytt breytist líka matið. Þess vegna er ekki hægt að draga rammaáætlunina fram sem raunverulegt mat á náttúrugæðum eða náttúrufari svæðisins, heldur eingöngu hægt að bera saman einstaka virkjunarkosti út frá þessari áætlun.

Þessi aðferðafræði rammaáætlunarinnar og sjálft eðli hennar krefst þess að hún sé í stöðugum gangi, sem hún er ekki. Þegar menn tala um fyrsta áfanga þessarar rammaáætlunar eiga menn við þá skýrslu sem hér hefur verið veifað úr ræðustól en ekkert hefur verið unnið í henni síðan hún var gefin út sem var að ég hygg árið 2003. Nú er í gangi svokallaður annar áfangi en það er ekki framhald þess mats sem fór fram í fyrsta áfanganum, heldur eru þar nýir virkjunarkostir teknir til mats en hinir gömlu eru látnir bíða og reyndar er það svo að sumir af þeim eru þegar úreltir og með aðra er það þannig að hætt er við þá og komnar hugmyndir um aðrar virkjanir á öðrum stöðum. Þess vegna er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma óheppileg viðmiðun þannig að kurteislega sé talað í þessu frumvarpi og niðurstöðum þeirrar nefndar sem það samdi að verulegu leyti.

Í frumvarpinu er vissulega gert ráð fyrir tveimur nefndum og ég tel að það sé betri tilhögun en var í nefndarskýrslunni upphaflegu — og get m.a. þakkað umhverfisráðherra fyrir afskipti sín af því — gert ráð fyrir tveimur nefndum, annars vegar nefnd iðnaðarráðherra sem á að búa til nýtingaráætlun svokallaða og hins vegar nefnd umhverfisráðherra sem á að búa til verndaráætlun. Manni dettur helst í hug að önnur eigi að útbúa sína áætlun á grunni arðsemis- og hagkvæmnismats svipað því sem er í rammaáætlun um orkunýtingu en hin þá væntanlega á grunni umhverfisþáttanna, en þessu fylgir reyndar í frumvarpinu og afhugasemdum um það engin leiðbeining, engar forsendur um það hvað á að gerast.

Formúleringin er sú, forseti, um þetta starf að þarna eigi að finna út, með leyfi forseta, „á hvaða svæðum Íslands nýting auðlinda í jörðu og vatnsafls verður heimil“. Það er það sem nefnd iðnaðarráðherra á að finna út.

Hins vegar á nefnd umhverfisráðherra að finna út, með leyfi forseta, „á hvaða svæðum Íslands“ slík nýting á auðlindum og vatnsafli „verður ekki heimil“.

Ég verð að viðurkenna með mitt takmarkaða gáfnafar að ég skil þetta ekki. Ég skil ekki þær forsendur sem þessar nefndir eiga að starfa eftir og ég held, aftur með fyrirvara um eigin gáfur, að það sé ósköp einfaldlega ekki búið að finna það út. Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hafa ekki fundið það út eða starfsmenn þeirra eða þá að iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra eru ekki sammála um hvaða forsendur þetta eru.

Þess verður svo að geta að þriðja nefndin, nefnd forsætisráðherra, sem á að skipa einum manni frá hverjum ráðherra af þessum þremur og engum að utan og engum frá stjórnarandstöðunni sem þá verður vonandi önnur en nú — þær forsendur eru alls ekki nefndar og engin leiðbeining um það hvernig sú nefnd á að fara að því að steypa þessum áætlunum saman, enda ákaflega hæpið að gera það. Það er meginmunurinn á þessari vegferð og tillögum okkar um svipaða hluti í því sem við köllum rammaáætlun um náttúruvernd að hjá okkur er náttúruverndin í forgangi. Hjá Samfylkingunni er náttúruverndin í forgangi. Fyrst verður sköpuð rammaáætlun um náttúruvernd með rannsóknum, með mati, með því að fara yfir allt landið og meta svæði í þessa þrjá flokka sem ég nefndi áðan. Síðan kemur nýtingaráætlun um þau svæði sem ekki njóta sérstakrar verndar og þær nýtingaráætlanir gera ekki bara ráð fyrir orkunýtingu, heldur líka ráð fyrir framkvæmdum við samgöngur, ferðamennsku, landbúnað. Þær saman birtast síðan í landsskipulagi og aðalskipulögum sveitarfélaganna.

Í frumvarpinu er vissulega tekið tillit til náttúruverndar, það er rétt að viðurkenna það strax og hrósa því að því leyti sem því er hrósandi. En náttúruverndartillitinu er teflt beinlínis gegn orkunýtingarhagsmununum á einhvers konar jafnræðisgrundvelli þar sem hér er ein nefnd og þar er önnur. Þessi jafnræðisgrundvöllur hefur reyndar þýtt það hingað til í sögu þessarar ríkisstjórnar og reyndar í lengri sögu, allt frá því um 1970 — en þá má segja að hinir nýrri tímar hafi hafist í þessum efnum — að framkvæmdin vinnur en náttúran tapar. Ég er hræddur um að ef núverandi ríkisstjórn situr áfram verði það áfram þannig að nefnd iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér en að niðurstöður nefndar umhverfisráðherra verði látnar víkja. Þess vegna eru okkar tillögur ósköp einfaldlega betri, þær eru sannari tillögur gagnvart þjóðarhug, gagnvart landinu sem við eigum að virða og höfum fengið að láni um okkar ævitíma en eigum ekki til að skemma og eyðileggja þannig að næstu kynslóðir sitji uppi með land sem hinar fyrri mundu ekki kannast við.

Áður en ég lýk þessum þætti vil ég nefna að í frumvarpinu er að sjálfsögðu ýmislegt annað jákvætt, t.d. ákvæðið um gjaldtöku, sem er merkilegt skref að auðlindagjaldsskipan eins og við jafnaðarmenn höfum lengi barist fyrir. Sú gjaldtaka á að vísu aðeins við um þjóðlendur og ríkisjarðir vegna þess að ríkisstjórninni sem hér hefur setið frá 1995 hefur tekist að koma því þannig fyrir og haft það að meginstefnu að það land annað en sem sérstaklega er í eigu ríkisins með einhverjum hætti, þjóðarinnar viljum við meina, sé fyrirvaralaus eign sem þjóðinni kemur ekki við, sem m.a. nær inn að miðju jarðar eins og við vitum. Við þetta geri ég athugasemd og fyrirvara eins og minn flokkur hefur áður gert.

Þá komum við að tímanum fram til ársins 2010 og við það ártal er rétt að gera strax þá athugasemd að það er ekki það ártal sem hér gildir, heldur er um það að ræða að forsætisráðherra á að flytja hér þingmál haustið 2010 samkvæmt þessu frumvarpi. Þær framkvæmdir sem hafa verið leyfðar áður halda áfram þannig að við erum að tala hér um framkvæmdir sem standa langt fram á annan áratug aldarinnar ef framkvæmdatíminn er tekinn með.

Um 2010 er það líka að segja að ég man satt að segja ekki eftir því að ártal af þessu tagi hafi staðist, jafnvel þó að það væri fest í lög. Bara nýlegt dæmi er t.d. að við settum af stað nefnd í fyrravor og ætluðum henni ákveðinn tíma, fram að áramótum, til að rannsaka leynigögn úr sögu kalda stríðsins fram til um 1990. Hún átti að skila fyrir áramót en hún skilaði sem sé um daginn og það er ekki í eina skiptið sem nefndir hafa skilað seint. Það er líklegt að þetta verði ekki 2010, það er líklegt að hér verði fyrst tvöfalt nefndastarf og það dragist og tefjist og síðan komi þriðja nefndin sem hefur greinilega mjög mikið að gera því að það á eftir að skapa henni forsendur og grundvöll til starfa sem ekki er í frumvarpinu eins og ég rakti áðan. Þess vegna er líklegt að það taki mun lengri tíma. Það er auðvitað ekki aðalathugasemdin sem hér er gerð því að röskir menn gætu kannski lokið þessu af ef raunverulegur áhugi væri fyrir hendi.

Hitt er svo annað hvernig þetta á að vera á þessum tíma, til 2010, 2015 eða 2020. Eins og við lesum eiga í fyrsta lagi allar þær framkvæmdir sem núna eru í pípunum að koma út úr þeim og verða að raunveruleika hér á landi. Í öðru lagi á að gefa þeim sem hafa rannsóknarleyfi nýtingarleyfi ef þeir hafa fengið fyrirheit um forgang að því. Hér er um það að ræða eins og rakið var ágætlega m.a. í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að stór hluti af því sem nú er í bígerð að virkja verður virkjað. Mikill hluti þeirra framkvæmda sem orkufyrirtækin hyggja nú á kemst í framkvæmd hvað sem þessu frumvarpi líður. Það er þannig að enginn stöðvar í raun og veru þá sem þegar eru farnir af stað með leyfi samkvæmt þessu frumvarpi. Það er rétt að gera sér fullkomlega grein fyrir því að hér er engin lausn veitt á þeim málum sem ríkisstjórnin hefur sjálf komið í uppnám og síðan dregið sig frá að hafa nokkurt vald yfir, m.a. í formlegum yfirlýsingum hæstv. iðnaðarráðherra.

Síðan kemur að því að þangað til þessi verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi, sú sem á að koma út úr nefnd forsætisráðherra, á Orkustofnun að geta veitt leyfi í umhverfisflokki a og b í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Eins og ég sagði um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hér áður er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hún er ekki um náttúruvernd, hún fjallar ekki um náttúruvernd. Með þeirri aðferð sem þar er upp tekin, því verkfæri, á að finna út hvaða virkjunarkostir er skástir gagnvart umhverfi og bestir miðað við arðsemi og hagkvæmni af þeim sem virkjunarmenn hafa lagt til. Þessi rammaáætlun miðast við einstakar tillögur sem breytast og þegar þær breytast breytist matið líka.

Það má segja í öðru lagi að þessi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er mikil smíð en þar þarf líka að skoða betur aðferðafræðina, viðmiðanir þar hafa reynst of þröngar. Menn hafa kvartað yfir því og skýrsluhöfundar sjálfir viðurkennt að hvað varðar víðerni og landslag séu viðmiðanirnar ekki nægar, matið taki ekki nægilegt tillit til þessara parta og síðan hefur komið í ljós að aðferðafræðin getur verið ónákvæm á einstökum sviðum. Til dæmis er skortur á dýralífi talinn neikvæður þáttur í mati á umhverfi og hann er það auðvitað alla jafna en það er eitt af því sem dregur niður Langasjó, sem ekki þarf neitt mat til að sjá hvað er merkilegur, ekki þarf neina vísindamenn til þess að skynja hversu mikil náttúruauðæfi eru fólgin í Langasjó. Þessi breyta dregur hann hins vegar niður vegna þess að það er enginn fiskur í sjónum eða var ekki til skamms tíma. Sá fiskur sem þar er er ónáttúrulegur að því leyti að honum var sleppt í sjóinn og vona flestir að hann drepist þar. Þessi skortur á dýralífi í Langasjó er jákvæður þáttur á því svæði vegna þess að það gerir sjóinn miklu merkilegra náttúrufyrirbrigði eins og náttúrufræðingar lýsa, eitt af fáum vötnum af sínu tagi þar sem enginn fiskur er og þar með verður skordýralíf og líf annarra skepna í þessu vatni allt annað, fjölbreyttara og auðugra en í flestum öðrum vötnum á Íslandi.

Í þriðja lagi, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti ágætlega á, hefur rammaáætluninni um nýtingu vatnsafls og jarðvarma aldrei verið komið til þingsins. Hún hefur nánast aldrei fengist rædd á Alþingi Íslendinga. Við höfum kvartað, stjórnarandstæðingar úr Samfylkingunni, úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og úr Frjálslynda flokknum, yfir því að það skuli aldrei eiga að gera neitt með þessa rammaáætlun. Fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, núverandi utanríkisráðherra, var fræg að því að draga lappirnar fram og aftur við þessa rammaáætlun, vilja ekki viðurkenna þau verðmæti, dýrmæti sem í henni fælust. Hún lýsti því yfir þegar hinn svokallaði fyrsti áfangi kom, sem var enginn áfangi en það orðalag mun hafa orðið til af hennar völdum, að hann ætti að vera til skoðunar og vera uppi í skáp hjá orkufyrirtækjunum þegar þau væru að líta á hugsanlega kosti en neitaði því með öllu að þetta tæki nokkurt gildi hér á þinginu eða fengi nokkurt lagagildi eða tilvísanagildi, hvað þá að Alþingi fengi að fjalla um þessa rammaáætlun með einhverjum formlegum hætti.

Umhverfisflokkur a, nú skulum við skoða það, hvaða virkjanir eru þar, hvaða svæði eru þar nefnd? Þar eru vissulega ýmsar virkjanir sem til greina koma og sumar eru farnar af stað. Afstaða til annarra hefur breyst á mjög stuttum tíma og er ástæða til að skoða það á ný. Ég nefni Ölkelduháls sem er rétt kominn til umræðu og vonandi ekki enn til framkvæmda. Ég nefni Innstadal sem veruleg andstaða er við hjá þeim á höfuðborgarsvæðinu sem þekkja þá miklu náttúruperlu. Ég er svo heppinn að gera það og tek undir það að þar á ekki að virkja nema verulega reki í nauðir. Innstidalur er hér í a-flokki samt, hann lendir þar í matinu. Hólmsárvirkjun er á viðkvæmum stað á landinu og það má nefna að gögn eru ófullnægjandi í samfellu við Krýsuvík, jafnvel þó að þar sé komið rannsóknarleyfi. Í Þverárdal eru gögn líka ófullnægjandi, og í Austurengjum við Krýsuvík má lesa hér úr skýrslunni að gæði gagna eins og það heitir eru ekki upp á marga fiska. Hágöngusvæðið er líka að gögnum til ófullnægjandi. Gagnaeinkunn Sandfells og Þverárdals er CCC, Austurengja BCC, Hágöngusvæðis BCB. Ég bara spyr, kannski ekki hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að honum er auðvitað alveg sama en hæstv. umhverfisráðherra: Er það hægt að við á Alþingi samþykkjum að það megi virkja á svæði þar sem gæði gagna eru samkvæmt rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma CCC? Er það ábyrg afstaða árið 2007 að stjórnvöld leyfi sér að fara fram á það við þingið að slíkar virkjanir renni í gegn með gagnagæði upp á CCC? Það er bara ósköp einfaldlega ekki nútímaleg hugsun, forseti, og erfitt að sætta sig við það.

Umhverfisflokkur b, ja, það er ekki alveg ljóst hvað þar er átt við vegna þess að hann er þó háður því — og má hrósa nefndinni fyrir að setja þó þann fyrirvara og þau skilyrði — að því einungis veiti Orkustofnun leyfi til virkjunar þar að ekki séu sérstakar athugasemdir gerðar við umhverfismál á því svæði. Þá er rétt að spyrja, vegna þess að þetta eru ekki mjög margir staðir, níu staðir — iðnaðarráðherra eða umhverfisráðherra hljóta að geta svarað því með þessa níu staði, ég fer ekki fram á að þau svari neinu um a-staði nema um einstaka parta. Gerðar eru athugasemdir við fjögur af þeim níu virkjunarsvæðum sem þar eru nefnd. Það eru umhverfisathugasemdir við Skaftárveitu, það er Langisjór. Það eru umhverfisathugasemdir við Skaftárvirkjun, við Kröflu – Leirhnjúk og Brennisteinsfjöll. Eru þá ekki þessir fjórir staðir undanþegnir þessu leyfi sem Orkustofnun fær? Ég vil gjarnan fá svar við því: Eru þeir það? Skaftárveita, Skaftárvirkjun, Krafla – Leirhnjúkur og Brennisteinsfjöll. Það er einfalt að svara þessu, bara segja: Já, þeir eru það. Þá er þetta mjög dýrmætt hvað sem öðru líður í þessu frumvarpi.

Í héraði og um landið allt er deilt þessar vikur og mánuði um tvo staði í viðbót, Villinganesvirkjun, þótt leyfi hafi þar fengist, og um Urriðafoss. Þá eru komnir sex af þessum níu stöðum í umhverfisflokki b. Um tvo í viðbót má svo segja það að þó að Hrafnabjargavirkjun og Fljótshnjúksvirkjun séu hér nefndar í umhverfisflokki b vantar einmitt þetta um víðernin og samhengið. Þær ætti að meta í því ljósi að þarna er verið að virkja í Skjálfandafljóti, sjálfu Skjálfandafljóti, lengsta fljóti landsins að því er við teljum sem erum með einhverjum hætti tengd Þingeyjarsýslum. Það rennur svo lengi undir jökli, sjáið þið, ef þið hafið ekki vitað það. Þar er um virkjanir að ræða í því fljóti sem er auðvitað í sjálfu sér mjög merkilegt og er sem sé eitt af þeim fljótum sem ekkert hefur verið virkjað í enn þá. Fyrsta virkjunin í því fljóti þýðir að það fljót er þá horfið úr þeim hópi og bara sú röksemd hlýtur að færa hana úr þessum flokki b í aðra flokka.

Það er eðlilegast í staðinn fyrir þá vitleysu að láta Orkustofnun grauta hér fram og aftur í umhverfisflokkum a og b að slá á frest virkjunaráformum meðan þetta starf fer fram, meðan rammaáætlun um náttúruvernd er búin til samkvæmt tillögum okkar í Samfylkingunni, eða þetta þrefalda nefndarstarf fer fram sem er þó skárra en ekkert. Þetta eru tillögur okkar í málinu, að slá virkjunaráformum á frest. Þetta eru tillögur Landverndar í málinu, komu fram í hádeginu í dag, slá virkjunaráformum á frest. Þeir nefna fimm ár hjá Landvernd.

Þetta eru líka tillögur hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur úr umræðunum hér í gær, að því er mér heyrðist. Það liggur ekkert á, sagði Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra. Hún stóð sig vel í umhverfisráðuneytinu þó að hún hafi þurft að láta undan meiri hlutanum í þessari ríkisstjórn í ýmsum efnum. Hún sagði þetta hér í gær: Það liggur ekkert á og orkuverð er að hækka. Það er ekkert sem pínir okkur til að taka ákvörðun um frekari virkjunarframkvæmdir með tilheyrandi umhverfisspjöllum, sagði hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hér í gær.

Einstakar undantekningar kunna að vera á þessu, ekki skal því neitað. Þá er það lágmark, eins og við samfylkingarmenn höfum lagt til í tillögum sem liggja fyrir þinginu, að á þessum umþóttunartíma komi sérhvert leyfi hingað í þingið, sérhvert leyfi sé háð samþykki Alþingis. Hver undantekning frá virkjunarhléinu á þessum tíma meðan rammaáætlunin er að verða til, rammaáætlun um náttúruvernd, fái sérstaka umfjöllun hér á þinginu og komist þar með í opna umræðu í samfélaginu öllu, meðal þjóðarinnar, þar sem öll gögn liggja á borðinu, ekki lokað af í iðnaðarráðuneytinu eða Orkustofnun eins og meiningin er með þessu frumvarpi. Það komi fram frumvarp eða þingsályktunartillaga um hvert slíkt mál.

Forseti. Það er margt fleira sem þarf að ræða í tengslum við þetta frumvarp og verður gert, bæði hér í umræðunni og í þeirri nefnd sem þetta fær til umfjöllunar. Eins og ég minntist á áðan er stjórnskipanin sjálf með þeim fráleita hætti að vera hjá iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun, sem eiga að fjalla um náttúruverðmæti á Íslandi, en ekki umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun eins og eðlilegt væri á okkar nýju öld. Það er líka annað sem ég minntist á, það er alveg óljóst um afdrif málsins í höndum forsætisráðherranefndarinnar og engar forsendur sem við höfum fyrir því starfi, og ýmislegt fleira. Lengi mætti ræða um gjaldamálin, gjaldtökuna, og þarf auðvitað að gera þó að það verði ekki í þessari ræðu.

Ég vil að lokum endurtaka þau meginatriði mín og flokks míns úr ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að heildarafstaða okkar í þessu frumvarpi er sú að við gerum fyrirvara um frumburðarrétt náttúruverndar, um stjórnskipan um gæslu og nýtingu náttúrunnar og ýmis fleiri atriði. Við tökum undir þá framtíðarskipan sem við höfum hér átt þátt í að byggja upp þótt við teljum að ýmislegt vanti í hana og vísum á tillögur okkar í þeim efnum í þeim atriðum. Við segjum nei, nei við þeim áformum hjá hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra um framkvæmdir, um virkjanir næstu 5–10 ár. Við þurfum allt annað en það að hér séu náttúruverðmætin lögð undir í þessu tafli, og á þessum grunni skapast auðvitað engin þjóðarsátt svokölluð. Þær yfirlýsingar eru eingöngu blekkingarleikur hæstv. ráðherranna rétt fyrir kosningar og liður í sameiginlegri kosningabaráttu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.