133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:16]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur verið ofboðslega virkjanaglaður. Alls staðar þar sem þingmenn hans hafa verið, hvort heldur það er í einkasamtölum eða opinberlega, hafa þeir talað um þessi mál nærri því með hnefann á lofti. Það er því ekkert skrýtið þótt við setjum spurningarmerki við þessar jákvæðu yfirlýsingar núna þegar textinn er ekki handfastari en þetta. Það hljómar líka vel þegar sagt er að við skulum við sjá hvaða umsögn umhverfisnefnd gefur. Þetta þýðir í raun að við skulum sjá til hvað stjórnarmeirihlutinn er tilbúinn að gera í umhverfisnefnd og í iðnaðarnefnd. Það er nú einu sinni hann sem ræður ferð.

Við erum þrír þingmenn Samfylkingarinnar sem tökum þátt í þessari umræðu til að leggja inn í hana það sem okkur finnst skipta máli af því nú þarf að breyta um stefnu. Við mundum vilja heyra hér að minnsta kosti tvo ráðherra segja: Gerum smáhlé áður en áfram er haldið.