133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:18]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég mun hafa tekið illa eftir í lok ræðu framsögumanns en ég fagna því að það skuli koma fram að fjalla eigi um málið í umhverfisnefnd. Ég taldi það vera iðnaðarnefnd en frá því hefur verið sagt að það verði í umhverfisnefnd. Ég fagna því alveg sérstaklega að um þetta mál skuli fjallað þar.

Til að auðvelda þá vinnu hef ég lagt hér fram spurningar til umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hæstv. um það hvernig fara eigi með tiltekna kosti í umhverfisflokki a eins og það er kallað.

Síðan spurði ég sérstaklega um umhverfisflokk b. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra hafi tekið að sér að svara þeim spurningum, alveg eins og spurningum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, og ég bíð þess þolinmóður og glaður.

Það sem ég vil hins vegar spyrja hæstv. umhverfisráðherra um í tilefni af ræðu hennar er þetta: Úr því þetta er allt svona gott og þarna er ekki um að ræða skilyrðislaust leyfi heldur aðeins heimild sem, að mínum skilningi og það verður þá leiðrétt, Orkustofnun hefur, reyndar með samráði við hina og þessa, er þá ekki rétt að það leyfi sé háð því skilyrði að Alþingi hafi samþykkt það í þingsályktunartillögu eða frumvarpi? Er þá ekki skynsamlegt að við sköpum þessa miklu sátt um framhald málsins með því að öll leyfi umfram þau sem þegar hafa verið veitt, og við skulum bara tala um það seinna í umhverfisnefnd, komi til Alþingis á sama hátt og við í Samfylkingunni höfum lagt til að verði? Er það ekki ágætisleið til að skapa farveg um sátt, ef ekki meðal þjóðarinnar þá a.m.k. á Alþingi?