133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skrifar ekki undir og styður ekki útfærsluna í ákvæði til bráðabirgða II í nefndaráliti starfshópsins, nú ákvæði til bráðabirgða III í frumvarpinu. Það er auðvitað veigamikill þáttur þessa máls hvernig farið er með málin og þau undirbúin á millibilstímanum.

Í öðru lagi er farvegur til þjóðarsáttar skárra orð en þjóðarsátt, það er skárra orð. (Gripið fram í.) Ég varð nú ekki var við annað eftir blaðamannafund ráðherranna í gær og pólitískar útleggingar af þeirra hálfu á þessari stöðu en að verið væri að reyna að telja þjóðinni trú um að þetta væri eitthvert þjóðarsáttartilboð gagnvart því sem fram undan er á næstu mánuðum og missirum í þessu máli. Það er einfaldlega ekki svo.

Varðandi samþættinguna er lögtaka meginreglna umhverfisréttarins, Ríó-yfirlýsingarinnar, að sjálfsögðu löngu, löngu tímabær. Það breytir ekki hinu að samþættingarhugsunin tapast út úr ferlinu í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að vinna þetta aðskilið (Forseti hringir.) undir umhverfisráðuneyti annars vegar og iðnaðarráðuneyti hins vegar. Það var það sem ég var að gagnrýna, hæstv. ráðherra.