133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[18:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem hefur verið mjög ítarleg og skilmerkileg og að langmestu leyti stóryrðalaus og málefnaleg. Ég hef sannfærst um það við þessa umræðu, þrátt fyrir það sem nokkrir hv. þingmenn hafa sagt, að þetta frumvarp markar leið til þjóðarsáttar. Umræðan, sem hér hefur farið fram, er fyrst og fremst um næstu fjögur ár, þ.e. millibilstímabilið, undirbúningstímabilið, en hér hefur hins vegar fjarskalega lítið verið rætt um það meginatriði frumvarpsins sem er heildaráætlun sem taki gildi með samþykkt Alþingis á árinu 2010. Ég tek undir það sem sagt hefur verið, að við þurfum að halda rannsóknum áfram og auka þær og er m.a. gert ráð fyrir því í frumvarpinu eins og kom fram í framsöguræðu minni um mat fjármálaráðuneytisins á kostnaðarþáttum við frumvarpið.

Í umræðunum hefur hæstv. umhverfisráðherra svarað spurningum um breytingar sem gerðar voru frá upphaflegri mynd frá þeirri nefnd sem vann frumvarpið, þ.e. að mynda tvo hópa í stað eins og síðan um meginreglur umhverfisréttarins. Og ég vísa til þess sem hún sagði um það.

Það voru mistök mín, að ég bað ekki um orðið á réttum tíma, til að svara fyrirspurnum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, og því er til að svara að eldra rannsóknarleyfi er útgefið fyrir Ölkelduháls og fyrir Trölladyngju en síðastliðið haust var gefið út rannsóknarleyfi fyrir Sandfell, byggt á nýrri gagnaöflun. Hún spurði líka um þá staði í b-flokki umhverfisáhrifa sem gerðar hefðu verið athugasemdir við. Því er til að svara að það er Skaftárveita og Skaftárvirkjun, Brennisteinsfjöll, og síðan var gerð athugasemd við Villinganesvirkjun vegna ferðamennsku og ferðaþjónustu, en um þá virkjun er eldra leyfi heimilað af Alþingi. Þá eru í b-flokki eftir Krafla – Leirhnúkur, Urriðafossvirkjun, Þeistareykir, Hrafnabjargavirkjun a og Fljótshnúksvirkjun, sem ekki hefur verið gerð athugasemd við.

Um meginefni umræðunnar hér í dag er það að segja að frumvarpið gerir ráð fyrir því að lögmætar fyrri ákvarðanir, sem teknar hafa verið og hafa fullt gildi, haldi gildi sínu svo sem eðlilegt er. Í annan stað er rammaáætlunin lögð til grundvallar, bæði fyrsti áfangi hennar eins og hann er, en alveg sérstaklega að halda áfram að vinna á þeim grundvelli. Sannleikurinn er sá að þessi rammaáætlun, svo skammt sem hún er komin, er ákaflega vönduð vinna. Ég leyfi mér að vitna til þess sem hópurinn sem samdi frumvarpið segir. Á blaðsíðu 77 í frumvarpsútgáfunni segir, með leyfi forseta:

„Líta má á niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar sem grunn fyrir mat á frumáætlunum virkjana, með hliðsjón af nýtingar- og verndunarsjónarmiðum, þar sem þær gefa vísbendingar um umhverfisáhrif mismunandi virkjunarkosta, en jafnframt kemur þar fram hvaða kostir geti verið fjárhagslega vænlegir. Með vinnu að rammaáætlun hefur að auki myndast mikilvægt gagnasafn um rannsóknir og náttúrufarsaðstæður virkjunarkosta sem kemur að miklu gagni þegar hugað er að frekari rannsóknum, nýtingu eða verndun.“ — Síðan er fjallað áfram um þetta í neðanmálsgrein.

Ég held þess vegna — og sérstaklega með tilliti til þess að þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði um þetta efni, um að það vanti gögn, miðist fyrst og fremst við flokkana d og e, c og aðallega þó d og e — að rammaáætlunin haldi fyllilega gildi sínu sem grunnur undir frekari rannsóknir og grunnur undir ákvarðanir. Líka hvað snertir magn og gæði gagna.

Hér hefur nokkuð verið talað um verð á raforku og ýmsar efasemdir komið fram í því efni. Það er mikilvægt að hafa í huga að verðið er tengt við endanlegt afurðaverð og hefur þess vegna gjarnan reynst hærra, eins og menn geta séð með því að bera saman ársskýrslur viðkomandi fyrirtækja, reynst hærra en ætla mætti beint af samningum.

Það er alveg ljóst að ef ásókn vex í raforku á Íslandi mun verðið hækka. Það er alveg ljóst. Hingað komu til mín norskir aðilar síðastliðið haust og voru að spyrjast fyrir um þetta vegna þess að það fréttist í Noregi að iðnfyrirtæki þar ætluðu að fara að hverfa til Íslands til þess að eltast við ódýrt rafmagn. Ég tjáði þeim að þeir yrðu snarlega fyrir vonbrigðum vegna þess að við vaxandi ásókn þá hækkar að sjálfsögðu verðið.

Við getum ekki séð fyrir um langa framtíð. Ég vara við því að menn treysti á það að fresta til þess að fá hærra verð. Það lítur þannig út núna en það getur breyst á skömmum tíma. Ég vara líka við því viðhorfi að fara að fresta eða slá af allar þær lögmætu ákvarðanir sem teknar hafa verið eða fara að vefengja fyrri hluta rammaáætlunarinnar í því skyni að ekkert verði gert í fjögur ár. Sannleikurinn er sá að vindarnir breytast undur hratt í efnahags- og atvinnumálum. Þó að nú sé þensla, og hafi verið að undanförnu, er alls ekki víst að svo verði næstu þrjú, fjögur, fimm árin. Þessi verkefni taka líka hvert um sig miklu meira en þrjú, fjögur ár í framkvæmd. Við verðum líka að hafa það í huga.

Jafnframt er þess að geta að ekki er búið að staðfesta þau verkefni sem við erum að tala um. Enn er mjög mikil óvissa uppi um marga þætti. Það eru umræður í sveitarfélögunum. Við höfum talað um það í þessari umræðu og fyrr í dag. Mjög marga þætti á eftir að fjalla um í einstökum atriðum áður en þær fyrirætlanir sem mest er talað um komast til framkvæmda. Fjögur ár eru satt að segja undur skammur tími og það er hættulegt í atvinnu- og efnahagsmálum og hagstjórn að vera með einhvers konar stopp/start-stefnu. Það er mjög hættulegt.

Það er miklu betra og skynsamlegra að halda sig við vandaða rammaáætlun, halda sig við ströng skilyrði, vinna vel að þessum hlutum með vandaðri stjórnsýslu og fylgja þeim ábendingum sem koma frá umhverfisráðuneyti og öðrum aðilum, frekar en að hlaupa í einhverju hræðslufáti út í start/stopp eða stopp/start-viðbrögð í efnahagsmálum. Ég vara við því.

Hér voru aðeins í umræðunni nefndar þær reglur sem gilda um verkaskiptingu ráðuneytanna. Auðvitað fjallar þetta frumvarp ekki um verkaskiptingu ráðuneytanna. Það eru lög um stjórnarráð Íslands. Það kemur vel til greina að breytingar verði á verkaskiptingu milli iðnaðarráðuneytis eða atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis í þessum efnum. En það er framtíðarmál.

Það hefur líka töluvert verið talað um efnahagsstefnu og þenslu. Það var vitað, og því var lýst yfir fyrir fram af ríkisstjórninni, að við stórframkvæmdirnar á Austurlandi yrði þensla. Sannleikurinn er hins vegar sá að þenslan af þeim varð minni en menn höfðu ætlað og mætti fara um það mörgum orðum hverjar ástæður þess voru. Það var hins vegar innrás viðskiptabankanna á fasteignalánamarkaðinn sem olli þeirri þenslu sem við höfum verið að takast á við nú á síðustu missirum og það er nauðsynlegt að hafa í huga.

Ég vil taka undir þau orð sem aðrir hafa haft hér, að þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir hennar ágætu ræðu og fyrir þær prýðilegu upplýsingar sem hún kom fram með. Mér voru þær að vísu kunnar að miklu leyti eins og mörgum fleirum en þær áttu erindi í umræðuna. Ég vil taka fram að ég er sammála hv. þm. Katrínu Fjeldsted um það. Við eigum ekki að stefna að því að hafa öll okkar egg í sömu körfu. Við höfðum það einu sinni í þorski og síld og við eigum ekki að stefna að því að það verði allt í alúminíum. Það er ekki skynsamlegt. Ég tel að við eigum að stefna að áframhaldandi vexti þekkingarsamfélags með vísindum og tækni og hátekjustörfum. Hluti af þeirri mynd er orkufrekur iðnaður en aðeins hluti, aðeins takmarkaður hluti.

Eins og fram hefur komið höfum við gert mjög miklar breytingar á stjórnsýslu þessara mála samkvæmt lögum sem sett voru árið 2003. Á grundvelli þeirra er ekki lengur rekin virk leitarstefna eftir fjárfestum og eftir tækifærum eins og gert var meðan Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar starfaði og iðnaðarráðuneytið vann mikið að þessum efnum. Hins vegar hefur ríkisvaldið verið að reyna að móta almenn viðskiptaleg viðhorf og rekstrarviðhorf á þessum markaði eins og öðrum. Það er erfitt vegna þess að þessi markaður er að mörgu leyti mjög sérstakur.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að ríkisvaldið kemur víða að ákvörðunum á þessu sviði. Það eru rannsóknarleyfi, það eru nýtingarleyfi og það eru rekstrarleyfi sem frumvarpið fjallar m.a. um. En það eru margs konar samningar og aðkoma sem verður síðan í undirbúningi verkefna. Það er rétt að hafa það í huga um þau verkefni sem hér hefur verið talað um, þau þrjú eða fjögur verkefni sem hér hefur verið talað um að séu á döfinni. Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Það eru ákaflega margir þættir í þeim sem á eftir að staðfesta, eftir að ákveða og eftir að tímasetja.

Í þeim skilningi er alveg óþarfi að vera með stopp/start-stefnu eða start/stopp-stefnu á næstu árum. Ég vil sérstaklega taka fram, og taka undir það sem kom fram í umræðunni, að þessi fyrirtæki eru mjög viðkvæm fyrir andstöðu, viðkvæm fyrir því þegar almenn andstaða kemur fram í þeim samfélögum sem þau ætla að starfa í.

Það er ljóst af þessari umræðu að ágreiningurinn er fyrst og fremst um undirbúningstímabilið, um þessi fjögur ár. Ég skil umræðuna á þann veg að í öllum aðalatriðum sé boðuð þjóðarsátt, víðtæk sátt um það tímabil sem þar kemur á eftir og ítreka ég þó það sem ég hef áður sagt við fjölmiðla: Auðvitað verða alltaf deilur um einstök verkefni og einstaka staði eins og gengur í frjálsu þjóðfélagi og er ekkert um það segja. Það er eðlilegt og gott að umræðan sé upplýst og málefnaleg.

Á þessu tímabili er rammaáætlunin hins vegar lögð til grundvallar. Þau verkefni sem hljóta einkunnina a í umhverfismati eða b án neikvæðra athugasemda og ef eitthvert annað verkefni verður á döfinni verða að koma til sérstakar rannsóknir, sérstakt sambærilegt mat og samþykki Alþingis.

Hér var talað um jafnræði nýtingar og verndar. Ég held að í framtíðinni verði það svo að verndunarsjónarmiðin fái vaxandi vægi. Ég held að við munum sjá þá þróun verða á komandi árum. Þá á ég m.a. við það að verndunarsjónarmiðin hafa, eins og líka hefur komið fram í umræðunni hjá hæstv. umhverfisráðherra, í sér fólgna mjög mikilvæga nýtingarhlið, þar sem er útivist, þar sem er að njóta fagurrar náttúru, þar sem er ferðaþjónusta o.s.frv. Reyndar getur ferðaþjónusta líka verið traðk og manni ber að taka það fram. En ég held að í ljósi þessa og í ljósi margra annarra mikilvægra sjónarmiða muni verndunarsjónarmiðin öðlast aukið vægi.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur að stefna á þeim grundvelli sem þetta frumvarp leggur að þeirri víðtæku þjóðarsátt sem greinilega getur orðið að liðnu því undirbúningstímabili sem ég var að rekja áðan, og í þeim skilningi var það í rauninni snjallyrði að tala um framvirka þjóðarsátt. Ég læt máli mínu lokið með því að láta í ljós þá von að þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar verði áhrínsorð.