133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það væri mjög skemmtilegt til tilbreytingar ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra mundi nú svara einhverjum af þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar.

Hann kom hér með fullyrðingu og hún var svona: Það er ekki hægt að taka tilboði um sættir sem felast í því að slá stóriðjuframkvæmdum á frest um fimm ár af því að það er hættulegt. Ég spurði hann: Hvað er hættulegt við það? Svar hans var: Það er hættulegt.

Hver eru rökin fyrir því? Hvað er það sem er hættulegt við það? Hæstv. ráðherra gaf engin svör við því. Nú hefur hann talað sig dauðan hér í þessum þingsal — þó að ég voni að hann lifi að öðru leyti mjög löngu og góðu lífi hér eftir — og það veldur því að ég fæ ekki svarið við þessu. (Gripið fram í: Þú ert búinn að fá það áður.) Ég hef ekki fengið það áður, herra forseti, ég hef reynt að efna til málefnalegrar umræðu við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um það sem er grundvallardeilan í þessu máli, sem er þessi: Hví ekki að slá stóriðjuframkvæmdum á frest og reyna að ná sátt meðal þjóðarinnar? En hæstv. ráðherra hefur engin rök. Hann kemur gersamlega klæðlaus til umræðunnar að því er rökin varðar. (Gripið fram í.) Við höfum sýnt fram á að hæstv. viðskiptaráðherra hefur manna best greint frá því að það er ekki þörf á stóriðju til að halda uppi hagvexti. Í annan stað hefur hann sagt að engin hætta sé á að við hrindum frá okkur einhverjum stórfyrirtækjum sem vilja fjárfesta í iðnaði af þessu tagi hér á landi vegna þess að þau standi í röðum. Hvað er það þá sem er hættulegt?

Það er ekkert hættulegt við þetta, þetta er einungis friðþæging Framsóknarflokksins fyrir skelfilegar fyrndir sem hafa birst þjóðinni í óbilandi og grimmúðlegum stóriðjuofsa flokksins. Og hann hefur birst flokknum í því að fylgið hefur tæst í burtu eins og strá í vindi.