133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:27]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Stóriðjustefnan er í gildi í hugum fólks segir hv. þm. Jóhann Ársælsson og heldur því fram að það sé stjórnarliðinu á Alþingi að kenna, ríkisstjórninni að kenna. (JÁ: Nú, hvað auðvitað.) Ég veit ekki annað en að hann hafi gasprað mest um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hann telur að það megi ekki leggja það á Hafnfirðinga að taka afstöðu af því þeir trúi því að það sé stóriðjustefna. Hver annar á að taka ákvörðun um þetta en íbúar í Hafnarfirði?

Ég minni hv. þingmann á, af því að það varð breyting á þessu fyrirkomulagi, að Samfylkingin stóð að þeirri ákvörðun. (Gripið fram í.) Talsmaður Samfylkingarinnar á þeim tíma þegar raforkulögunum var breytt í þessa veru hafði sérstaklega orð á því í þeirri umræðu að kannski væri ekki séð fyrir endann á þessu. En hann studdi að valdið færi frá Alþingi og til ráðherra, þ.e. leyfisveitingarnar að þessu leyti.

Þingmönnum átti að vera alveg fullljóst hvað þeir voru að gera á þeim tíma. Það var verið að færa ákvörðunarvaldið (Forseti hringir.) um virkjanir og stóriðju til sveitarfélaganna.