133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:31]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Mér finnst málflutningur, herra forseti, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ekki standa traustum fótum, að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar byggi á því hvernig fyrrverandi iðnaðarráðherra talar fyrir álverið hugsanlega í sínu kjördæmi. Er það stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig tala hv. samfylkingarmenn í Hafnarfirði? Hvernig tala samfylkingarmenn á Húsavík? Hvernig tala sveitarstjórnarmenn á Húsavík almennt, og í Hafnarfirði? Einstakir þingmenn geta haft sínar skoðanir á þessu og ég vísa í þessu tilviki á að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur sagt að Hafnfirðingar eigi að fá að kjósa um þetta. Að vísu kiknaði hún í hnjánum nýlega og hélt því fram að kannski ætti hugsanlega að fresta því að taka ákvörðun. Hennar niðurstaða er sú að Hafnfirðingar eigi að fá að velja um þetta. Allir þeir sem hafa áhuga á stóriðju, (Gripið fram í.) eru þeir í forsvari fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar?

Það er gjörsamlega út í hött að reyna að sverja þetta af sér. Það er búið að reyna að telja þjóðinni trú um það ítrekað að ríkisstjórnin reki stóriðjustefnu. (Gripið fram í.) Svo heldur hv. þm. Jóhann Ársælsson því fram að fólk trúi því að það sé stóriðjustefna. Það er einfaldlega vegna þess að þingmenn eins og Jóhann Ársælsson halda því fram að svo sé. Það er kominn tími til að leiðrétta það. Ég held að fólkinu í þessum sveitarfélögum sé ljóst að hvað verður byggir mikið til á afstöðu þess. Þetta fólk hefur alla möguleika í þessum sveitarfélögum til að koma athugasemdum sínum á framfæri og ef það ekki vill stóriðju stoppar það stóriðju (MÁ: … skipulagsmál.) um skipulagsmál og í gegnum allt það ferli sem fram undan er.