133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég neyðist til og ætla að gera það af fyllstu kurteisi að leiðrétta að það plagg sem hv. þm. Mörður Árnason var að vísa í er ekki stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum heldur er þetta fréttatilkynning um meginefni frumvarps um losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju. (Gripið fram í.)

Þá vil ég segja að þetta frumvarp eins og segir í fréttatilkynningunni fjallar eingöngu um takmörkun á losun frá stóriðju en ekki eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt fram, að það taki ekkert til stóriðju. Það fjallar ekki um neitt annað. Þarna er kveðið á um reglur sem eiga að takmarka það og tryggja að við stöndum við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar, reglurnar sem byggja á áætlun sem á að vinna í samráði við þessi fyrirtæki sem hafa áform um að reisa álver. Það á að gera áætlun á árinu 2008, það á að úthluta árlega ákveðnum heimildum og það kemur á daginn þegar farið er að vinna áætlunina hvort áform þessara fyrirtækja rúmist innan þeirra losunarheimilda sem við eigum. Ef við förum fram yfir þetta er það á kostnað heimilda eftir 2012, en ég tel það vera mjög takmarkandi að það er bara þetta árabil 2008–2012. Það er alger óvissa um hvað tekur við.

Það er eðlilegt að þeim sem hafa áform um að reisa álver með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda væri það ljóst, ekki síðar en núna, út frá hverju þeir geta gengið með fyrirætlunum um rekstur og hvar óvissan byrjar sem er 2012. Ég held að þetta sé verulega takmarkandi fyrir hvers konar áform um að reisa og reka álver á Íslandi til viðbótar þeim álverum sem þegar eru (Forseti hringir.) starfandi.