133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

meginreglur umhverfisréttar.

566. mál
[21:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ber þá að líta þannig á að ef búnaðurinn er nógu góður, miðað við það sem gerist í heiminum, þá sé hægt að flytja á einhvern stað í heiminum sem gæti t.d. verið Ísland, framleiðslu sem mengar mikið, alveg endalaust, ef búnaðurinn sem til þess er í lagi og uppfylltar eru reglur landsins sem slíks? Hefur hæstv. ráðherra enga skoðun á því að þessi regla eigi að hafa neina virkni hvað varðar heildarniðurstöðu af þeirri losun sem um er að ræða, að það séu engar hömlur á því?

Síðan er það greiðslureglan sem ég spurði um áðan og hæstv. ráðherra svaraði ekki. Telur hæstv. ráðherra að það sé í samræmi við greiðsluregluna að úthluta loftslagsútblæstri frítt til álveranna í landinu eins og gert hefur verið með íslenska ákvæðinu og allri losun fram að þessu eða telur hæstv. ráðherra að það þurfi að gera einhverjar breytingar á þeirri stefnu?