133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er fyllileg ástæða til að lýsa yfir áhyggjum vegna stöðu mála í samningum og viðræðum milli launanefndar sveitarfélaga og kennara en þar hefur samkvæmt nýjustu fréttum verið gert hlé á. Kjarasamningur kvað á um ákveðna launahækkun um síðustu áramót sem virðist ekki enn vera komin til framkvæmda og auk þess hafa ýmsar forsendur í kjarasamningi breyst. Það er því full ástæða til að lýsa áhyggjum yfir þeirri stöðu sem komin er upp ef þessar samningaviðræður hafa nú stöðvast.

Ég hvet ríkisstjórnina til að beita áhrifum sínum því þótt málið sé í höndum sveitarfélaganna, samningsaðildin annars vegar, þá er kennslan og starf grunnskólanna í sjálfu sér á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, ábyrgð menntamálaráðherra. Ég tek því undir að það er fyllileg ástæða til að ríkisstjórnin setji sig inn í málið og kanni hvernig hún geti stutt við það að kjarasamningar og samningar á milli sveitarfélaganna og kennara gangi með eðlilegum hætti fyrir sig og þar náist viðunandi og góð lausn á svo ekki sé verið að tefla í neina tvísýnu hvað það varðar. Við megum alls ekki við því. Ég hvet forsætisráðherra til að setja sig inn í málið og beita áhrifum sínum til að samningar haldi áfram og nái farsælum lyktum.