133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:10]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir séu sammála um það og enginn hér inni eða annars staðar deili um það að það skiptir afskaplega miklu máli að skólastarf gangi vel fyrir sig og að mikilvægt sé að kjör kennara og annarra starfsmanna skólans séu eins best getur verið. Ég veit ekki til þess að um það hafi verið deilur. Það er hins vegar nokkuð athyglisvert að heyra hv. stjórnarandstæðinga segja hér hreint og klárt að það sé í rauninni ríkið sem eigi að sjá um þau mál sem við höfum talið vera málefni sveitarfélaganna fram til þessa. Það eru miklar fréttir því að ég veit ekki betur en menn hafi alla jafna talað á þá leið að það skipti máli að efla sveitarstjórnarstigið og sveitarfélögin eigi að ráða sínum málum. Það sem menn eru að segja hér er að svo eigi ekki að vera heldur eigi ríkisvaldið að sjá um þau mál sem hafa svo sannarlega verið málefni sveitarfélaganna fram til þessa.

Sá sem hér stendur hefur starfað á fleiri stöðum, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem var vinstri meiri hluti eins og menn muna. Ég man ekki eftir þessum áherslum þar, að minnka ætti völd sveitarfélaganna og færa þau yfir til ríkisins. En mér finnst gott að menn komi hreint og klárt fram og segi sínar skoðanir og það hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gert. (Gripið fram í.) Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en sem vantraust á sveitarfélögin, það er ekki hægt að túlka það neitt öðruvísi. Það er auðvitað bara skoðun hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar og þeir eru frjálsir að hafa þá skoðun.