133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða það að illa horfir með grunnskólahald í landinu ef ekki semst um sómasamleg kjör til handa kennurum og öðrum starfsmönnum skólanna. Skólahaldi verður ekki haldið uppi nema með hæfu starfsfólki, það er alveg augljóst mál.

Hæstv. ríkisstjórn er auðvitað ekki stikkfrí í því máli. Hún blandaði sér í deilurnar síðast. Hæstv. menntamálaráðherra er stjórnskipulegur og faglegur ábyrgðaraðili fyrir skólastarfið í landinu. Ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi gengur frá fjárlögum og markar sveitarfélögum tekjur með lagaramma og fjárveitingum. Auk þess er það svo að grunnskólahaldið í rekstri sveitarfélaganna er langstærsti einstaki útgjaldaliður þeirra. Mörg sveitarfélög setja um 40–60% af rekstrartekjum sínum beint í grunnskólann. Þessi liður er því afgerandi um stöðu þeirra og afkomu. Þar af leiðandi eru möguleikar þeirra til að stórhækka launin afar takmarkaðir nema það sé borð fyrir báru í rekstri þeirra eða ríkisvaldið sýni þörfum þeirra að þessu leyti skilning. Hvorugt virðist vera til staðar. Ríkisstjórnin hefur svelt sveitarfélögin um langt árabil og það er mikil meinsemd vegna þess að sveitarfélögin eru undirstöðuþáttur í velferðarsamfélagi okkar. Það er líka meinsemd í byggðalegu tilliti að sveitarfélögin eru vanmáttug og geta lítið gert. Hvernig sem á málið er litið varðar það auðvitað ríkisstjórnina og skeytingarleysi hennar um báða þætti málsins er ámælisvert.

Ég held að full þörf sé á því að taka þetta mál til ítarlegri umræðu þegar allir ábyrgðaraðilar þess, þar með talin hæstv. menntamálaráðherra, eru til staðar ef ekki rætist úr þessu á næstunni.