133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:21]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála, miðað við þann fjölda sem tók þátt í umræddri göngu í gær, að það stefnir í óefni meðal grunnskólakennara. Þar er bæld reiði og undirliggjandi óánægja með kjör. Ég held að reynslan hafi sýnt okkur að kennarar geti sannarlega haldið því fram að kjör þeirra séu léleg og ekki eftirsóknarverð.

Það er út af fyrir sig slæmt að hæstv. menntamálaráðherra sé ekki viðstaddur þessa umræðu með tilliti til mikilvægis hennar. En ég rifja það upp að í síðasta verkfalli sem stóð sex vikur sagði hæstv. menntamálaráðherra stöðugt að henni kæmi þetta mál ekki við. Hún vísaði því, eins og nú er gert, til sveitarfélaganna. Að endingu varð að setja lög til að stöðva verkfallið. Ríkisvaldið þurfti að bregðast við og axla ábyrgðina sem hvílir á menntamálaráðuneytinu undir slíkum kringumstæðum. Í ljós kom að það kom hæstv. menntamálaráðherra við hvernig þetta mál var meðhöndlað.

Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum með að hæstv. forsætisráðherra skuli endurtaka yfirlýsingar um að þetta mál sé þeim óviðkomandi. Þetta er raunverulegt vandamál, kjaramál, sem hlýtur að hafa mikil áhrif á menntastefnuna og starf grunnskóla í landinu.