133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:29]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Stuðningur ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við innrásina í Írak er einn daprasti atburðurinn í sögu íslenska lýðveldisins. Enn hafa forustumenn þessara flokka ekki beðið íslensku þjóðina afsökunar né heldur dregið þann stuðning til baka, eins og kom rækilega fram í máli forsætisráðherra áðan.

En daprara er þó að forsætisráðherra skuli segja að ekki sé búið að taka afstöðu til þess, komi beiðni um stuðning við innrásina í Íran verði hún gerð. Mér finnst, herra forseti, að forsætisráðherra og ríkisstjórnin ættu í fyrsta lagi að biðjast afsökunar á stuðningi sínum við innrásina í Írak sem var hrapalleg.

Í öðru lagi ætti ráðherra að taka fram að ekki komi til greina að styðja Bandaríkjamenn eða nokkra aðra til innrásar í annað land, hvort sem er í Íran eða önnur lönd. (Forseti hringir.) Sú yfirlýsing ætti að vera á hreinu. En í stað þess fáum við (Forseti hringir.) svona loðin orð og undanbrögð eins og hæstv. forsætisráðherra hafði í frammi.