133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Verð að vísu að lýsa sérstökum vonbrigðum með þau fyrir utan það fyrsta að ekkert erindi hafi borist frá bandarískum stjórnvöldum. En það að hæstv. ráðherra skuli ekki geta tekið hér af skarið og gefið um það hreina yfirlýsingu að ekki komi til greina af Íslands hálfu að ljá máls á því að ráðist verði með ólöglegum hætti á Íran og að Ísland muni aldrei leggja slíku lið, það veldur undrun og furðu.

Hvers vegna getur ekki hæstv. forsætisráðherra bara einfaldlega gefið út slíka yfirlýsingu hér og nú? Því miður virðast Bandaríkjamenn hafa takmarkaðan áhuga á diplómatískri lausn deilunnar. Þeir hafa ítrekað hafnað viðræðum við Írana. Það hafa að vísu Íranar líka gert á víxl og eru ólíkindatól eins og kunnugt er, en það er líka athyglisvert að hinu sögulega bréfi Mahmoud Ahmadinejads var hafnað á nokkrum klukkustundum af bandarískum stjórnvöldum í stað þess a.m.k. taka það til skoðunar.

Hér er það enn staðfest sem kom fram í orðaskiptum okkar hæstv. forsætisráðherra snemma á þessu þingi, að stuðningur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við stríðið í Írak er enn í fullu gildi. Atbeini Íslands stendur enn. Hæstv. forsætisráðherra reynir að vísu að koma sér hér út úr málinu með því að segja að hann eigi ekki við lengur. En ég veit ekki betur en átökin í Írak geisi enn og yfirlýsingin er ótímabundin og hefur ekki verið dregin til baka með formlegum hætti.

Þá fer maður að velta því fyrir sér: Það var mikið að gera með játningu núverandi formanns Framsóknarflokksins eða hitt þá heldur. Hún hefur ekki breytt miklu úr því að málið stendur algerlega óhreyft af hálfu ríkisstjórnar Íslands þrátt fyrir húsbóndaskiptin í Stjórnarráðinu og að nýir menn séu komnir þar við stjórnvölinn. Ja, hún ætlar að fylgja okkur lengi, arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í þessu máli.