133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það gleymist gjarnan í umræðum um þetta mál að Alþingi samþykkti að veita 300 millj. kr. til uppbyggingar í kjölfar stríðsins í Írak og það var auðvitað mikilvægur þáttur í þeirri ákvörðun sem tekin var í tengslum við þetta mál.

Annars er það náttúrlega óviðeigandi að tala um þetta mál eins og Íslendingar séu beinir þátttakendur þarna í stríðsátökum. En spurning fyrirspyrjanda laut að öðru máli jafnframt, þ.e. Íran, og eins og ég sagði, það er ekkert sem bendir til þess — þrátt fyrir það sem fyrirspyrjandi sagði — að einhver hernaðarátök séu í uppsiglingu. Við höfum ekki tekið neina afstöðu til slíkra mála, ekki verið farið fram á það af nokkrum aðila, en auðvitað mun ríkisstjórnin fara yfir slíkt mál ef eitthvert erindi berst um það. En ég hef ekki tamið mér að svara fræðilegum spurningum af þessu tagi fyrir fram. (Gripið fram í.) Ég tel afar ólíklegt að til átaka komi og að til þeirra verði stofnað með einhverjum sambærilegum hætti og gert var í Íraksmálinu þar sem safnað var hópi ríkja saman til að taka þátt í því máli, þar á meðal Dönum og ýmsum Evrópuþjóðum, eins og okkur er kunnugt um.

Aðalatriðið í þessu er að reyna að stuðla að því að sú viðleitni sem Evrópuríkin hafa gengist fyrir, ekki síst kannski Þýskaland, til að reyna að ná friðsamlegri, diplómatískri niðurstöðu í þessu máli, heppnist. Þar er náttúrlega fyrst og fremst við hin ósveigjanlegu öfl í Íran að fást, sem virðast ekki ætla að taka neinum sönsum í þessu máli milli þess sem þau hóta því að þurrka Ísraelsríki út af kortinu.