133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

réttarstaða íslenskrar tungu og staða annarra tungumála í löggjöf og stjórnkerfi.

267. mál
[12:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hér er spurt um afdrif þingsályktunartillögu um að athuga réttarstöðu íslenskrar tungu sem var útbýtt í þinginu 2. desember 2003. Að baki henni stóðu fimm þingmenn úr öllum flokkum ásamt mér, þeir hv. þingmenn Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Tillagan vakti nokkra athygli í Alþingi og í samfélaginu, hlaut góðan byr og var samþykkt 26. maí 2004 að vísa henni til ríkisstjórnarinnar.

Í henni var fjallað — í símskeytastíl — um réttarstöðu íslenskunnar í löggjöf og stjórnkerfi hér á landi, rakið að í raun er ekki nema á fáeinum stöðum í löggjöfinni fjallað um íslensku og stöðu hennar. Það er t.d. ekkert sem býður þingmönnum að tala íslensku hér á þinginu, ég gæti talað hérna sanskrít án þess að forseti hefði í raun rétt til beinna afskipta af því. Þetta var kannski eðlilegt áður þegar íslenska var sjálfsögð í fullvalda og sjálfstæðu ríki en sú staða er nú breytt. Gagnvart löggjöfinni er þetta þannig að þegar eru til ákveðnir lagabálkar sem gilda á Íslandi en eru ekki þýddir á íslensku, eru á EES-tungum, og þeim fylgja ekki ákvæði um hvernig eigi að snúa sér gagnvart slíkum texta, t.d. ákvæði um skylda túlkun eða skýringar í stjórnkerfinu.

Þarna var líka rætt um það að gera íslensku að opinberu máli á Íslandi í stjórnarskránni, sem víða er í lögum í kringum okkur og má minnast Frakklands en þar stendur í stjórnarskránni að „La langue de la République est le français“, þó að ég vilji ekki hvetja til þess beinlínis að taka upp málpólitík Frakka undanfarnar aldir, enda aðstæður öðruvísi. Mörkuð eru önnur mál í EES-löggjöf og ýmsum alþjóðalögum og alþjóðlegu samstarfi okkar. Í tillögunni er líka fjallað um opinbera þjónustu sem þyrfti tryggilega að vera á íslensku en einnig um stöðu annarra tungumála, um alþjóðamálin, ensku og aðrar slíkar tungur, þýsku, frönsku, spænsku, um stöðu nýbúatungumálanna í stjórnkerfinu, sem kominn er tími til að við íhugum, og í menntastofnunum og um táknmál heyrnarlausra sérstaklega sem móðurmáls þeirra sem ekki tala íslensku eins og við.

Vorið 2004 var samþykkt, eins og ég sagði, að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar og ég vil nota tækifærið og þakka einkum Gunnari I. Birgissyni, sem þá var formaður menntamálanefndar, fyrir hlýjan stuðning við málið en hann var einn af sköpurum þessara endalykta. Á sínum tíma var sagt við mig að þetta væri kurteisleg aðferð við að drepa málið. Ég taldi að svo væri ekki, málið væri það brýnt að ráðherrarnir, einkum hæstv. menntamálaráðherra sem væri sérstakur umsjónarmaður íslenskrar tungu, hlyti að taka það til athugunar. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég þeirra spurninga sem raun ber vitni hér úr þessum stól.