133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

réttarstaða íslenskrar tungu og staða annarra tungumála í löggjöf og stjórnkerfi.

267. mál
[12:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það eru margar hættur sem steðja að lítilli tungu í því alþjóðlega samfélagi sem Ísland er nú þátttakandi í. Þess vegna skiptir miklu að stjórnvald hafi hverju sinni mjög skýra stefnu um íslenskt mál og fylgi henni eftir af röggsemi. Það er líka nauðsynlegt út af þeim breytingum sem hafa orðið á umhverfi íslenskunnar og okkar sem þjóðar að íslenskan hafi alveg skýra réttarstöðu sem opinbert mál okkar. Hv. þm. Mörður Árnason hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem var vísað af Alþingi til ríkisstjórnarinnar þar sem lagt var til að stjórnarskráin tæki þetta upp með skýrum hætti. Sú tillaga var í framhaldi af samþykkt Alþingis send af hv. þingmanni til stjórnarskrárnefndar þar sem ég sit. Sömuleiðis hefur þeirri nefnd borist erindi frá Íslenskri málstöð þar sem tekið er undir þetta viðhorf. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða afstöðu hefur hún til þess að stjórnarskráin mæli skýrt fyrir um þetta?