133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

starf trúfélaga í grunnskólum og framhaldsskólum.

314. mál
[12:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er rétt að taka fram í upphafi að þjóðkirkjan og önnur trúfélög hér á landi eru órjúfanlegur partur af þessu samfélagi og vinna margt þarfaverkið fyrir það auk þeirrar starfsemi og þeirra verka sem þeim eru einkum ætluð. Umræða um vinaleiðina svokölluðu hefur verið nokkuð rúmfrek í ýmsum fjölmiðlum að undanförnu og meðal þeirra sem hafa áhuga á þessu efni í skólum og trúfélögum. Hún varðar sem sé starf þjóðkirkjunnar í skólum með aðstöðu þar og kynningu og með, að því er mér skilst, nokkuð beinni þátttöku í sjálfu skólastarfinu. Þetta vekur spurningar, m.a. um eðlilega kynningu trúfélaga í skólunum og jafnræði trúarhópa gagnvart skólakerfinu og nemendum. Við vitum að þjóðkirkjan er stærsta trúfélagið og með sérstökum hætti vernduð í stjórnarskrá. Félögum í henni fækkar hins vegar að hlutfalli, annars vegar vegna þess að fleiri eru utan safnaða, kjósa ekki að vera í neinum söfnuði, og hins vegar vegna þess að fleiri eru í öðrum söfnuðum og það er áberandi að aukist hefur fjöldi þeirra sem eru í öðrum söfnuðum en kristnum söfnuðum. Það er kannski fyrst og fremst að rekja til þeirra fjölmenningartíma sem hér eru að renna upp en fæstir innflytjenda tilheyra hinni evangelísku lútersku kirkju í heiminum.

Þetta varðar líka stoðstarf í skólunum, hvaða starf sé eðlilegt að starfsmenn kirkjunnar vinni utan kirkju í hinu almenna skólakerfi, þessarar kirkju eða annarrar, og hvernig það fari saman við störf á vegum sálfræðinga, starfs- og námsráðgjafa eða félagsráðgjafa sem skólarnir eiga að útvega. Spurning vaknar um það hvort skólana skorti slíkt fólk þannig að þeir þiggi alla þá aðstoð sem í boði er þó að einkennileg mörk verði með því á milli hins borgaralega samfélags og einstakra trúarhópa.

Upplýsing er auðvitað til alls fyrst í þessu efni og þess vegna hef ég lagt fyrir menntamálaráðherra átta spurningar um vinaleiðina og annað starf trúfélaga í grunnskólum og framhaldsskólum og raunar leikskólum líka sem hæstv. menntamálaráðherra svarar hér á eftir.