133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

námstími til stúdentsprófs.

491. mál
[13:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvað líði fyrirætlunum hennar um styttingu námstíma til stúdentsprófs og hvenær sé gert ráð fyrir að slíkar tillögur komi fram.

Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu núna, þegar 90 dagar eru eftir af þessu kjörtímabili, er sú að tvisvar sinnum á þessu kjörtímabili komu fram skýrslur, tillögugerð Sjálfstæðisflokksins, um að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár.

Að mínu mati voru þetta pólitísk markmið um sparnað í skólakerfinu. Þetta hefði í för með sér harkalegan niðurskurð á námi í framhaldsskólum og gengisfellingu á stúdentsprófinu. Sem betur fer náðist sá áfangasigur fram fyrir réttu ári að hæstv. ráðherra var rekin til baka með þessar hörmulegu tillögur um niðurskurð í framhaldsskólakerfinu og náðist samkomulag ráðherra við Kennarasamband Íslands.

Síðar hér í þinginu sagði ráðherra að samt kæmi fram mál þann vetur sem tæki á því að stytta námstíma til stúdentsprófs og enn þá stæði til að stytta um ár eins og lagt var upp með bæði í Tómasartillögunum árið 2003, sem voru alveg skelfilegar, og tillögum hæstv. ráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, árið 2005, sem voru lítið betri þegar þær voru skoðaðar grannt.

Það pólitíska markmið að fjölga þeim sem útskrifast fyrr með stúdentspróf styður Samfylkingin heils hugar. Það verður gert með því að veita skólasamfélaginu svigrúm og frelsi, skólunum sjálfstæði til að þróast hver með sínum hætti með því að koma rekstrinum á framhaldsskólunum til sveitarfélaganna, þannig að sveitarfélögin reki þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Samfellan verði því aukin á milli skólastiganna. Skilin á milli minnki og hverfi nánast þannig að þetta verði ein samfella frá leikskóla upp í gegnum framhaldsskóla og fleiri nemendur sem því valda og þeir sem það vilja taki stúdentsprófið fyrr, á tveimur til þremur árum en ekki fjórum eins og núna.

En við höfnum algerlega tillögum Sjálfstæðisflokksins um pólitískan niðurskurð um eitt ár sem að okkar mati eyðileggur stúdentsprófið að verulegu leyti og eru algerlega óboðlegar tillögur. Enda voru hæstv. ráðherrar menntamála Sjálfstæðisflokksins reknir til baka með slíkar tillögur tvisvar á einu kjörtímabili.

Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvað líði þessum tillögum nú. Er hættan fyrir framhaldsskólann liðin hjá? Hefur ráðherra endanlega hent þeim tillögum á pólitíska hauga? Eða vofir það enn þá yfir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að skera niður og gengisfella íslenska framhaldsskólann með þeim hætti sem boðaður hefur verið? Er hættan liðin hjá? Koma slíkar tillögur fram á því kjörtímabili sem nú er að líða og einungis 90 dagar eftir? En við vitum að mörg frumvörp eiga enn eftir að verða að lögum. Er hættan liðin hjá? Fá kjósendur að kjósa núverandi ríkisstjórn í burtu í vor áður en hæstv. menntamálaráðherra kemur þessum afleitu tillögum fram?