133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

kostnaður við dagskrárliði Ríkisútvarpsins.

500. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég var áðan með tillögu um að lengja ræðutíma hæstv. menntamálaráðherra með breytingum á þingsköpum. En það kemur líka til álita, vegna þess að hæstv. ráðherra fellur einkar vel að hafa hið síðasta orð og gusa þar út úr sér ýmsum hálfsannleik og skáldskap sem ekki er hægt að svara eða leiðrétta, að hafa það þannig að menntamálaráðherra hafi alltaf síðasta orðið og tali bara ein í sinni umræðu og síðan tölum við hinir dauðlegir menn einhvers staðar annars staðar á öðrum tímum. Þannig geta samskiptin farið fram skriflega eða yfir fjarskiptakerfið.

Það sem ég ætlaði að spyrja um var svar Bjarna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra sjónvarpsins, í Fréttablaðinu 4. janúar við saklausri spurningu um hvað áramótaskaupið hefði kostnað, með leyfi forseta: „Kostnaður við skaupið er ekki gefinn upp enda viðskiptaleyndarmál og trúnaðarupplýsingar.“ Ég kannast við að það getur átt við í starfsemi fyrirtækis eins og Ríkisútvarpið er, fyrr og síðar, að ekki sé við hæfi að gefa upplýsingar um kostnað eða aðra þætti í rekstri fyrirtækisins meðan yfir standa samningaviðræður eða um aðrar viðkvæmar aðstæður er að ræða. Á hinn bóginn er sjálfsagt að þær upplýsingar liggi fyrir þegar því ástandi er lokið, sérstaklega og einkum þegar um er að ræða dýrustu og merkustu liði dagskrárinnar svo sem eins og þetta áramótaskaup, eða Evróvisjón-keppnina sem nú er í gangi með athygli og við skemmtan allrar þjóðarinnar, þegar einstakir dagskrárliðir taka mikið rúm í dagskránni, ég nefni heimsmeistarakeppni eða Evrópukeppni í ýmsum íþróttum eða almennar hátíðir á vegum þjóðarinnar eða annað það sem eðlilegt er að menn spyrji um og fái að vita. Í þessari fyrirspurn spyr ég líka um það hvenær þessi siður hafi verið tekinn upp og hver kostnaðurinn hafi verið við skaupið sem um er að ræða 2006, skaupið þar áður 2005 og skaupið þar áður 2004. Ég spyr þessara spurninga að því gefna tilefni að þegar leitað er á netinu með leitarorðinu, ég man ekki hvort það var „skaupið“ eða „áramótaskaupið“, þá blasir við í einum af fyrstu svörunum hver kostnaðurinn var við það árið 2003. Mig minnir að hann hafi verið 4 milljónir sem skiptir ekki máli hér en það er bein tilvitnun í fundargerð eða bein innsýn í fundargerð útvarpsráðs frá þeim tíma. Þannig að eitthvað hefur breyst eftir þann tíma og þess vegna er þessi kurteislega fyrirspurn borin fram til hæstv. menntamálaráðherra sem svarar henni af sínu ljúfa geði og einbeitta samstarfsvilja.