133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

kostnaður við dagskrárliði Ríkisútvarpsins.

500. mál
[13:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð einkennilegt svar hjá hæstv. menntamálaráðherra sem er haldin einhverri meinloku í þessu máli. Þetta pukur um kostnað er náttúrlega algerlega fráleitt. Að sjálfsögðu á þetta að liggja fyrir, að sjálfsögðu. Það er engin ástæða til að vera að pukrast með þetta mál. Hvernig stjórnvöld svara þessari sjálfsögðu fyrirspurn endurspeglar talsverðan pólitískan hroka sem felst í því að það komi engum við hvað gert er fyrir opinbert fé. Þetta er algerlega fráleit ástæða og ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að endurskoða svar sitt og koma fram með þessar upplýsingar. Hvaða leyndarmál er þetta eiginlega? Þetta er opinbert fé og það skiptir skattgreiðendur máli og þá sem eru þvingaðir með lögum til að borga skylduáskrift að RÚV að vita hvað stærstu dagskrárliðirnir kosta. Það er algerlega sjálfsagt mál. Þetta eru upplýsingar sem eiga að liggja opnar öllum þeim sem þær vilja nálgast.