133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

kostnaður við dagskrárliði Ríkisútvarpsins.

500. mál
[13:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Mér kemur svar hæstv. menntamálaráðherra mjög á óvart. Mér kemur ekki á óvart að Bjarni Guðmundsson og félagar hans skuli reyna að rökstyðja mál sitt í svari til ráðherrans en mér kemur á óvart að ráðherrann axli ábyrgð á þessu svari og neiti að gefa fjölmiðlum annars vegar og þingmönnum hins vegar upplýsingar sem varða kostnað við stærstu dagskrárliði í Ríkisútvarpinu sem reyndar var ríkisstofnun á þeim tíma sem um er að ræða og er áfram fyrirtæki í eigu ríkisins, þ.e. í eigu þjóðarinnar. Það fé sem hér er verið að tala um er opinbert fé, almannafé og almenningur á heimtingu á því að fá að vita hvernig því er varið.

Eins og ég sagði áðan geta aðstæður verið þannig í rekstri að ekki sé heppilegt af ýmsum ástæðum að veita ýmsum upplýsingum inn í samningsgerð eða gefa upp kostnað á viðkvæmum tímum. Það á ekki við hér og ég get lofað ráðherranum því að þessu máli verður fylgt eftir. Nú hefur Ríkisútvarpið breyst og hver veit nema það séu að því leyti góðar breytingar að það er hægt að knýja Ríkisútvarpið og ráðherrann til að gefa upp staðreyndir af þessu tagi vegna þess að hið opinbera hlutafélag tilheyrir ekki bara upplýsingalögum heldur er stjórn þess skylt að svara spurningum þingmanna á aðalfundum og ég vænti þess að menntamálaráðherra staðfesti það á eftir að með þeim hætti sé unnt að leita uppi þessar upplýsingar. Ég óska líka eftir því að menntamálaráðherra rökstyðji það með betra móti en hún hefur gert hingað til af hverju svona upplýsingar eiga að vera leyndarmál og pukursmál og hvaða upplýsingar yfir höfuð menntamálaráðherra og hennar menn í Ríkisútvarpinu eru reiðubúin að gefa upp um rekstur fyrirtækisins.