133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

skattlagning tekna af hugverkum.

547. mál
[13:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina enda um áhugavert álitaefni að ræða sem m.a. BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, ályktaði um á aðalfundi sem haldinn var í Borgarnesi 20. janúar sl. Þar skoraði BÍL m.a. á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign er lyti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og bæri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.

Vegna fyrirspurnarinnar vil ég engu að síður geta þess og minna á að skattamál eru, eins og menn þekkja, á verksviði fjármálaráðherra samkvæmt reglugerð um Stjórnarráðið og samkvæmt. 10. gr. sömu reglugerðar eru menningarmál og þar með talinn höfundarréttur á könnu menntamálaráðherra.

Það er ljóst að skattheimta og tilhögun hennar snertir ótal mörg svið og málaflokka og mikilvægt er að slík umræða fari fram á víðtækum grunni. Ég hlýt að sjálfsögðu að virða verkaskiptingu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og forræði fjármálaráðherra í skattamálum en skorast að sjálfsögðu ekki undan því að taka þátt í slíkri umræðu.

Á undanförnum missirum hefur sú þróun orðið að listamenn eru í auknum mæli farnir að lifa af síðari afnotum verka sem þeir hafa samið eða eiga eftir að semja. Ég tel því líklegt að BÍL vilji m.a. í tilefni af áðurnefndri ályktun bandalagsins fá umræðu um hugverkamál og skattheimtu þeim tengdum á árlegum samráðsfundi okkar, þ.e. ráðuneytisins og þeirra, en hann verður haldinn núna fimmtudaginn 15. febrúar nk., þ.e. á morgun. Vænti ég þess að á þeim vettvangi komi fram frekari röksemdir fyrir þessari ályktun sem gæti síðar hugsanlega orðið innlegg í frekari umræðu um þessi mál.

Ég vil líka upplýsa það hér að Samtónn og Stef funduðu, veit ég, með fjármálaráðherra og aðstoðarmönnum hans vegna þessa máls á sínum tíma, fyrir jól. Einnig var fundað út af lækkun, þau börðust fyrir því að lækkaður yrði virðisaukaskattur á geisladiskum sem við léðum máls á og eins og menn vita mun virðisaukaskattur á geisladiskum líka lækka eins og matarskatturinn 1. mars. nk.

Þetta er alltaf spurning um skattapólitík eins og við þekkjum. Hvernig skattkerfi viljum við hafa? Eigum við að hafa lága skattprósentu og reyna að hafa þá einfalt skattkerfi eða fjölga undanþágunum? Þetta verðum við að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig. Ég veit að Írar reyndu á sínum tíma að bjóða höfundum að koma til landsins og greiða engan skatt en síðan var komið í veg fyrir það af hálfu Evrópusambandsins. Á grundvelli jafnræðisreglu bannaði það Írum þetta, og það er líklegt að þeir fari upp í 10% á næsta ári. Enn sem komið er, skilst mér, hefur ekkert land sett hugverkaréttindin undir þessa skilgreiningu varðandi það að hún sé eign, falli þá beint undir eignarskatt og þá skattprósentu sem þar er undir.

Ég tel þetta mikilvægt og vil enn og aftur þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þetta mál. Þetta er spennandi umræða sem við getum tekið á grundvelli hugverkaréttar. Ég hlakka til þessa fundar sem við munum eiga núna með BÍL en ítreka að svona breytingar verðum við að taka á mjög víðtækum grunni, ekki taka bara fyrir eitt sérstakt mál. Ég hef áður svarað hér fyrirspurnum varðandi það hvort ekki eigi að undanþiggja enn frekar greiðslur, styrki og stuðning til menningarmála, íþróttamála og æskulýðsmála og ég hef sagt mig fylgjandi því. Engu að síður verðum við að hafa það hugfast að það er mikill akkur fólginn í því fyrir fyrirtækin í landinu að greiða lágan skatt. Við fáum meiri skatttekjur til ríkisins með því að fyrirtækin greiði lægri skattprósentu en þau gerðu hér á árum áður en um leið eykst líka, með lægri skatttekjuprósentu, svigrúm fyrirtækja til þess að efla stuðning sinn við margvíslega starfsemi eins og menningu, listir, íþróttir og æskulýðsstarfsemi.