133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

skattlagning tekna af hugverkum.

547. mál
[13:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég man ekki eftir að hafa lent í því áður að vera með fjórar fyrirspurnir nokkurn veginn í einfaldri röð til hæstv. menntamálaráðherra en það er óneitanlega mikil lífsreynsla og dágóð skemmtun að vera það. Svörin eru af því tagi að falla miklu frekar undir menninguna, og þá einkum skemmtigeira menningarinnar en undir stjórnmál.

Spurningu Björgvins G. Sigurðssonar sem skaust hér inn á milli þessara fjögurra var svarað á þeim fimm mínútum sem menntamálaráðherra hefur til ráðstöfunar til að svara fyrirspurnum. Allar þær fimm mínútur nýtti menntamálaráðherrann til að svara í löngu máli því sem hún hefði getað ákaflega einfaldlega svarað á einni sekúndu með jái, nefnilega spurningunni: Hvenær linnir þessum ósköpum, er hættan liðin hjá? Hún átti bara að segja já.

Nú hefur hún tekið fimm mínútur í að svara spurningu minni um afstöðu menntamálaráðherra til þeirrar tillögu Bandalags íslenskra listamanna að tekjur af hugverkum beri sama skatt og fjármagnstekjur, tekið fimm mínútur í að svara þar sem í spilamáli er einfaldlega notað orðið „pass“. Pass, segir menntamálaráðherra við þessu.

Mér þykir það leitt vegna þess að ég tel að hvað sem líður verksviði fjármálaráðherra sé menntamálaráðherra fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að hafa afstöðu í þessu efni og gera grein fyrir því hvaða kosti og galla hún sjái við hugmynd sem er um skattlagningu á mjög merkilegu sviði sem heyrir undir ráðuneytið sem hún stjórnar.