133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

486. mál
[13:48]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi Mörður Árnason spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að settar verði reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, annars vegar frá stóriðju og hins vegar frá öðrum uppsprettum.

Ég vil byrja á því að upplýsa að þann 6. febrúar sl. var frumvarp mitt um losun gróðurhúsalofttegunda samþykkt á fundi ríkisstjórnar. Því frumvarpi er ætlað að tryggja losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju hér á landi, að hún verði ekki meiri en skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni leyfa og mun þannig skapa stjórnvöldum tæki til að takmarka losun koldíoxíðs frá stóriðju. Ég vonast til að Alþingi geti tekið málið til þinglegrar meðferðar sem fyrst og þá verður tækifæri til að ræða efni frumvarpsins ítarlega.

Hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá öðrum uppsprettum en stóriðju er ekki í bígerð nein sambærileg lagasetning hvað hana varðar. Það er hins vegar fyrirhugað að grípa til ýmissa aðgerða á grunni nýrrar stefnumörkunar stjórnvalda í loftslagsmálum sem ég geri ráð fyrir að kynna á allra næstu dögum.

Ég vil þó í þessu samhengi nefna að fyrirhugað er að skoða hvernig enn frekar megi koma á hagrænum hvötum til að nýta loftslagsvænt eldsneyti og kaupa loftslagsvæn ökutæki. Þegar hafa verið stigin skref í þá átt með niðurfellingu eða lækkun á gjöldum á vetnisbíla, rafmagnsbíla og önnur loftslagsvæn ökutæki og með upptöku olíugjalds í stað þungaskatts sem gerir það hagkvæmara en áður að reka dísilbíla sem valda minni losun koldíoxíðs en bensínbílar.

Í fyrri viku voru kynntar tillögur Vettvangs um vistvænt eldsneyti sem er undir formennsku iðnaðarráðuneytisins en fleiri ráðuneyti, þar á meðal umhverfisráðuneytið, eiga aðild að. Þar er m.a. lagt til að endurskoðaðar verði reglur um opinber gjöld af ökutækjum til að dregið verði úr notkun jarðefniseldsneytis í samgöngum og hliðstæðar tillögur munu koma fram í nýrri stefnumörkun í loftslagsmálum.

Margt fleira mætti nefna en ég held að það sé óþarft að hafa langt mál um slíkar aðgerðir í svari við fyrirspurn hv. þingmanns þar sem ég tel að fyrirspyrjandi hafi fyrst og fremst verið að spyrja um reglusetningu um takmörkun og losun en ekki allar aðgerðir sem gripið hefur verið til eða kann að verða gripið til í loftslagsmálum.

Ég hef nýlega svarað fyrirspurn hér á þinginu um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum þar sem ég fór yfir þær margvíslegu aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til.