133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

laun sjómanna og lífskjör á landsbyggðinni.

448. mál
[14:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom í lok ræðu sinnar inn á að sennilega væri arðbærasta einingin í íslenskum sjávarútvegi í dag hinn svokallaði leiguliði. Ég held að það sé mikið til í því. Ég held að við ættum að hugleiða hvernig kvótakerfið hefur leitt til þess að landsbyggðin er víða hreinlega arðrænd, þ.e. svipt tekjum sínum með kvótaleigu sem er oft ekki annað en hreinn þjófnaður. Við segjum það bara hreint út.

Það er engin sanngirni í því að sjómenn og útgerðarmenn sem reyna að reka fyrirtæki sín skuli þurfa að greiða kannski allt að 70% af aflaverðmætinu til einhvers sem er svo heppinn að fá einu sinni á ári sent heim til sín bréf frá Fiskistofu með kvótaúthlutun. Það engin sanngirni í þessu. Þetta er íslenskri þjóð og íslenskum sjávarútvegi til háborinnar skammar. Þetta er kannski mesta óréttlætið í kvótakerfinu, þessi bölvaða kvótaleiga.