133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

laun sjómanna og lífskjör á landsbyggðinni.

448. mál
[14:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna í sjávarútvegsráðherra. Hann sagði orðrétt: „En það sem er svolítið gaman við þetta kerfi er að það hefur þróast þannig að þetta er hins vegar arðvænlegt kerfi og er að skapa góð lífskjör úti á landsbyggðinni.“ (Sjútvrh.: Smábátakerfið.) Það er orðrétt, haft eftir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann skýrir þessi orð sín í fyrri ræðu sinni með því að fiskverð hafi hækkað í heiminum. Þetta kerfi kemur því ekkert við, hvað þá gengisþróun. Kerfið sem hann er að mæra hefur einmitt leitt til þess að milljarðar renna úr vösum sjómanna og tekjur hafa dregist saman á landsbyggðinni. Það er óumdeilt nema þá … (Gripið fram í.) Ég sé að hæstv. sjávarútvegsráðherra (Gripið fram í.) er órótt undir þessu. En þetta eru staðreyndir málsins. Það er einnig staðreynd að stór hluti sjómanna er án kjarasamninga og það kemur honum ekki heldur við. Það er bara eitthvað sem fólk á við úti í bæ, aðilar þessa vinnumarkaðar. Þetta kemur honum ekkert við.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra: Það er ekki alltaf sem hæstv. forsætisráðherra boðar skattalækkanir heldur boðaði hann sérstaka skattahækkun á sjómenn í upphafi kjörtímabilsins með því að leggja af sjómannaafsláttinn. Það væri fróðlegt að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þeirra skattahækkana sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði þá.

Ég sé að tími minn er að renna út en að lokum er hér ágætisgrein í World Fishing sem ég vil benda hæstv. ráðherra á. Þar lýsir sérfræðingur Alþjóðastofnunar í landbúnaði og fiskveiðum hjá Sameinuðu þjóðunum kerfinu sem algerlega misheppnuðu.