133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vetnisrannsóknir og eldsneyti.

557. mál
[14:49]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka undir þakkir til hv. þingmanns fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Það er líka óhætt að segja að engin þjóð í veröldinni hafi stigið jafnróttæk skref í átt til vetnisvæðingar og við Íslendingar og það ánægjulega er að um það ríkir nokkuð þverpólitísk samstaða. Íslenska ríkisstjórnin er sú fyrsta í veröldinni sem lýsir því opinberlega yfir að hún vilji nýta vetni og vetnistækni sem stóran hluta af efnahagskerfi sínu. Hins vegar mun hraðinn á þessari þróun að sjálfsögðu ráðast af því hvað alþjóðasamfélagið gerir, ekki síst bílaframleiðendur, en í augnablikinu veðja þeir flestir á vetnistæknina sem framtíðartækni í samgöngum. Skipaverkefni eru að fara af stað, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan.

Íslendingar eru hins vegar að bjóða Ísland sem tilraunavettvang fyrir þessa nýju tækni enda landið upplagt til þess vegna smæðar sinnar, reynslu af vistvænum orkugjöfum og þar fram eftir götunum. Vonandi eigum við eftir að sjá þá sem fást við hinar nýju tilraunir á þessu sviði, hvort sem er vetni eða metan, (Forseti hringir.) sameinast í einum vettvangi.