133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vetnisrannsóknir og eldsneyti.

557. mál
[14:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mikilvæga umræðu að ræða. Nefnt hefur verið að mikill hraði sé á þróun til vistvænnar orku fyrir bíla og farartæki en því miður virðist vera meiri hraði á þeirri þróun að nota olíu og bensín. Þar hefur orðið gríðarlegur vöxtur á umliðnum árum. Samhliða því að finna aðra orkugjafa þarf einnig að ræða um það að ná fram sparnaði á þeim farartækjum og tækjum sem eru í notkun. Það er ekki síður verkefni okkar en að finna nýja orkugjafa.

Ég var svo heppinn að vera boðið á ráðstefnu nú á dögunum þar sem einmitt var rætt um notkun metans. Það virðist vera mjög vænlegt til að nota á bíla, sérstaklega þá sem eru hér í Reykjavík. Miklir möguleikar eru á metanframleiðslu á öskuhaugunum hér en einungis er um 1% af þeim möguleikum nýtt. Það er um að gera (Forseti hringir.) að hafa vakandi auga með þessari þróun.