133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vetnisrannsóknir og eldsneyti.

557. mál
[14:55]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég endurtek þakkir mínar til fyrirspyrjanda og annarra sem tekið hafa þátt í umræðunni um þetta mikilvæga mál.

Talið er að um 10% af nýtanlegri orku hérlendis nægi til þess að vinna vetni sem muni duga fyrir bílaflotann og skipaflotann þannig að þetta skiptir verulegu máli. Bílaflotinn og skipaflotinn valda sameiginlega um 2/3 af þeim mengunarútblæstri sem við erum að tala um.

Það er alveg rétt, sem hér kom líka fram í umræðunni, að á Íslandi eru sérstakar aðstæður sem gera landið eftirsóknarvert sem tilraunasvæði. Það er mjög mikilvægt að við notum þá aðstöðu, að við notum hana fyrir okkur sjálf, á þeim forsendum og út frá þeim markmiðum sem áður hafa komið fram, en líka í rauninni fyrir allan heiminn.