133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands.

245. mál
[15:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér heyrðist að svar hans væri á þá leið að eina flugið milli lands og Eyja sem kæmi til greina að greiða niður væri flugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.

Ég tek að sjálfsögðu undir það að mjög mikilvægt er að við tryggjum öflugt flug á þeirri leið. Ég get alveg tekið undir það að þarna á ríkið að eiga hlut að máli. Sérstaða Vestmannaeyja er með þeim hætti að ég held að mjög mikilvægt sé að ríkisvaldið standi sig einmitt vel varðandi það að halda uppi þeirri öflugu þjónustu. Það skiptir mjög miklu máli fyrir þá byggð.

Það hefur mjög mikið að segja til að mynda fyrir ýmsa verslun, þjónustu og ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum að fyrir hendi séu tryggar flugsamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Vestmannaeyja og flogið sé á stórum flugvélum þannig að hægt sé að tryggja að sem flestir komist með í hverri ferð fyrir sig. Þetta erum við væntanlega sammála um, ég og hæstv. samgönguráðherra.

Hitt er þó annað og það er að við verðum að tryggja að samkeppnisaðstaða sé jöfn. Mér finnst það ósanngjarnt, og ég held að það hljóti að stangast á við samkeppnislög, að flugfélögum sé mismunað á þennan hátt. Við megum ekki gleyma því að flugið á milli Vestmannaeyja og Bakka hefur einnig verið mjög mikilvægt og skipt mjög miklu máli. Þar hefur einkaframtakið verið í sinni fegurstu mynd, ef svo má segja. Þarna hefur lítið flugfélag stundað öflugan og góðan rekstur og staðið sig með miklum ágætum. En ég hygg að samkeppnisstaða þeirra hafi versnað mjög við að þetta flug var tekið upp aftur á nýjan leik.

Ég vildi því nota þetta tækifærið, virðulegi forseti, til að hvetja hæstv. samgönguráðherra til að jafna nú þennan aðstöðumun og sjá til þess að Flugfélag Vestmannaeyja njóti (Forseti hringir.) svipaðra kjara og Flugfélag Íslands.