133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vegrið.

292. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Önnur fyrirspurn mín til hæstv. samgönguráðherra í dag fjallar um svokölluð víravegrið. Spurningar mínar eru tvær og þær hljóða svo, með leyfi forseta:

Hafa samgönguyfirvöld einhver áform um að fjölga víravegriðum á þjóðvegum landsins og ef svo er, hver eru þau áform?

Síðari spurning mín er: Hvernig metur samgönguráðherra þá reynslu sem komin er af notkun þessara vegriða hér á landi?

Fyrir nokkrum missirum voru sett slík víravegrið á kafla vegarins yfir Hellisheiði og þessi víravegrið hafa, hvað eigum við að segja, sætt nokkurri gagnrýni og skoðanir fólks eru skiptar á því hvort rétt hafi verið að leysa málin á þann hátt eða ekki.

Bent hefur verið á, og maður veit það svo sem sjálfur af eigin reynslu, að það er svolítið óþægilegt að hafa þetta á miðjum veginum. Það er til að mynda mjög erfitt um vik að snúa við á annarri akreininni eða reyndar báðum, því vegurinn er í raun hólfaður niður, hólfaður í tvennt, ef svo má segja, skorinn langsum og hálfundarleg staða sem getur komið þarna upp. Ég veit það sjálfur af eigin reynslu.

Aðrir hafa bent á að slysahætta sé af slíkum víravegriðum. Fólki sem fer um til að mynda á mótorhjólum er mjög illa við þessi víravegrið. Ég hef mikinn skilning á því vegna þess að ég ferðast stundum um á slíku farartæki og það er mjög slæmt mál ef fólk missir stjórn á ökutækjum sínum og lendir utan í þessu. Þá getur það haft mjög alvarleg meiðsli í för með sér.

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp bara til að forvitnast um hvort samgönguyfirvöld séu að skoða þessa tvo kosti víðar varðandi hugsanlegar lausnir á samgöngumálum landsmanna. Einnig væri fróðlegt að vita, virðulegi forseti, eða heyra hvernig hæstv. ráðherra metur þá reynslu sem komin er af notkun vegriða á Íslandi, t.d. hvort hann taki undir eitthvað af þeim gagnrýnisröddum sem komið hafa fram um þessi tilteknu víravegrið sem eru nú á Hellisheiði.