133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vegrið.

292. mál
[15:17]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefnið í vegamálum er að skilja að aksturstefnurnar. Í væntanlega mörgum tilfellum eru 2+1 vegir með vegriði og víravegriði ákjósanlegur kostur en þau hafa verið umdeild. Vélhjóla- og bifhjólaeigendur hafa deilt á notkun þeirra sums staðar og það er ágætt að fá fram nokkuð ítarlegar upplýsingar, samantekt og samanburðarupplýsingar frá mörgum löndum um hið rétta í málinu.

2+1 vegirnir eru að sjálfsögðu ágætur kostur þegar umferðarþungi er tiltekinn og vegaxlir og bratti út af veginum er með þeim hætti að það uppfyllir umferðaröryggiskröfur. Vegurinn um Svínahraun, sem við ræðum í dag og er oft notaður til viðmiðunar um 2+1 veg og víravegrið, er einfaldlega allt of mjór eins og fram kemur í samgönguáætlun. Það voru ákveðin mistök gerð þar að því leytinu. Við verðum að læra af þeim og hafa vegina heppilegri, af því að aðskilnaður akstursstefna skiptir svo gífurlega miklu máli og við verðum að finna bestu leiðina til þess. Auðvitað er besta leiðin 2+2, (Forseti hringir.) eyja eða bil en það á að sjálfsögðu ekki alls staðar við.