133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vegrið.

292. mál
[15:20]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn fái sem bestar upplýsingar um þessa hluti. Eitt af því sem nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir er það að hin svokölluðu víravegrið eru ekki eingöngu notuð til þess að aðskilja aksturstefnur heldur eru vegrið einnig þar sem bratt er fram af og háir kantar til þess að koma í veg fyrir alvarleg slys ef bílar aka út af. Þar hafa víravegriðin svokölluðu sannað gildi sitt þar sem er hætta á snjósöfnun og þar sem skafrenningur getur valdið vandræðum. Þau hafa síður safnað að sér snjó en þykku bitavegriðin.

Það er því á margt að líta í þessu. Ég held að það sé mjög gagnlegt að þingmenn velti þessu fyrir sér en aðalatriðið er auðvitað að hönnuðir veganna fái frið til þess að velja kosti byggða á rannsóknum og reynslu þeirra sem sinna hönnun vega og sjá um viðhald og þjónustu á vegakerfinu, því að ég held að líklegt sé að menn sem sinna vetrarþjónustu t.d. séu færari en venjulegir ökumenn sem fara um þjóðvegina um að meta hvar eigi að setja slík vegrið og hvernig þau eigi að vera, ég tala ekki um þá sem sinna hönnun og taka ákvarðanir um framkvæmdir. Ég treysti því vegagerðarmönnum og hönnuðum mjög vel til þess að velja hina réttu (Forseti hringir.) kosti á hverjum stað.