133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aðgangur að háhraðanettengingu.

508. mál
[15:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Spurt er: „Hvenær er gert ráð fyrir að allir íbúar landsins hafi aðgang að háhraðanettengingu og hver er áætlaður kostnaður við að tryggja öllum landsmönnum slíka tengingu óháð búsetu?“

Svar mitt er svohljóðandi: Stjórn Fjarskiptasjóðs vinnur nú að því verkefni í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar sem Alþingi samþykkti að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum.

Spurt er um það hvenær gert sé ráð fyrir að allir íbúar landsins hafi aðgang að háhraðatengingum. Fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að þeim hefur fækkað mjög mikið sem hafa ekki aðgang að háhraðatengingum, sem er auðvitað fagnaðarefni. Það er ekki vegna þess að viðmiðunum hefur verið breytt eða skilgreiningum um það hvað sé háhraði heldur hitt að þeim heimilum sem ekki hafa aðgang hefur fækkað.

Fjarskiptasjóður stefnir að því að auglýsa útboð á fyrri hluta ársins og að skrifað verði undir samninga um uppbyggingu háhraðatenginga á þeim stöðum þar sem hennar nýtur ekki við. Í framhaldi hefst síðan uppbyggingin. Á þessu stigi er erfitt að segja til um hve langan tíma það tekur að markaðsaðilar ljúki uppbyggingunni en stefnt er að því að það verði sem allra, allra fyrst.

Rétt er að undirstrika að ekki er fært að gefa upp nákvæmar tímasetningar. Við höfum lagt á það ríka áherslu, eins og fram kom í markmiðum fjarskiptaáætlunar, að þetta yrði á þessu ári þannig að við vitum að menn eru mjög óþreyjufullir. Hins vegar er tæknin að hjálpa okkur mjög mikið í þessu öllu saman. Nýr búnaður er að koma sem er öflugri og auðveldar þetta mikilvæga uppbyggingarverkefni.

Jafnframt er spurt hver sé áætlaður kostnaður við að tryggja öllum landsmönnum slíka tengingu óháð búsetu. Eins og áður sagði er undirbúningur við útboð í fullum gangi. Hluti af þeim undirbúningi er að vinna nákvæma kostnaðargreiningu. Hún liggur ekki fyrir enn þá og verður ekki birt fyrr en tilboð í verkefnið verða opnuð í framhaldi af útboði. Við viljum ekki sýna á spilin, það er ekki hygginna manna háttur að gefa fyrst upp áætlaðan kostnað og óska síðan eftir tilboðum. Við leggjum mjög mikið upp úr því að allar reglur séu gagnsæjar og aðgengilegt sé fyrir fjarskiptafyrirtækin að bjóða í uppbygginguna og ég á ekki von á öðru en að það gangi vel. Að vísu var verðið hærra en við bjuggumst við í fyrsta hluta útboðsins en nú eru fjarskiptafyrirtækin reynslunni ríkari og hafa undirbúið sig þannig að ég vona svo sannarlega að næsti áfangi verði ódýrari fyrir Fjarskiptasjóð þannig að það berist góð tilboð í þetta.

Aðeins almennt um verkefnið, þá vil ég undirstrika það að það var tímamótaákvörðun að samgönguráðherra legði fram sem stjórnartillögu fjarskiptaáætlun sem hlaut mjög góðar viðtökur og var samþykkt sem ályktun Alþingis. Eftir henni hefur verið unnið. Jafnframt var það tímamótaákvörðun að nýta hluta af söluandvirði Símans til þess að koma til móts við dreifbýlið sérstaklega varðandi uppbygginguna. Það gleymist stundum að þessi tækni, þessi þjónusta var ekki til staðar. Það er því fjarskiptaáætlunin sem er bæði að reka á eftir fjarskiptafyrirtækjunum til þess að byggja upp þjónustuna og einnig að tryggja þar sem markaðsbrestur verður að þjónustan verði að veruleika og það hillir undir að það verði innan skamms tíma.