133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

samgöngubætur á Vestfjörðum.

537. mál
[15:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er eru vegasamgöngur á Vestfjörðum í ótrúlegum ólestri enn þá árið 2007. Heill landshluti, Vestfirðirnir, býr við aðstæður sem löngu eru gleymdar á öðrum svæðum landsins nema ef vera skyldi á norðausturhorni þess.

Það er því ekki að ástæðulausu sem mikill áhugi er á samgöngumálum meðal Vestfirðinga og að upp er kominn áhugamannahópur um samgöngubætur, sennilega fleiri en einn hópur. Nýlega fengu þingmenn Norðvesturkjördæmis erindi frá hópi sem kallar sig Vini Vestfjarða. Þar eru settar fram hugmyndir um samgöngubætur sem fela það í sér að fara í göngum á milli Ísafjarðar og Kollafjarðar og stytta þannig leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, jafnframt því sem hún yrði öll á láglendi. Gert er ráð fyrir samgöngum milli suður- og norðurhluta Vestfjarða um þessa leið að vetrinum til en yfir heiðarnar að sumarlagi.

Mér finnst hugmyndirnar athygliverðar og full ástæða til að skoða þær með opnum huga, eins og sagt er í bréfi frá áhugahópnum, ásamt því að kanna vilja heimamanna í því hvaða leið þeir telji ákjósanlegasta. Það er held ég almennt vitað að hugur margra stefnir til þess að bæta samgöngur við Reykjavík áður en horft er til annarra átta.

Það er öryggismál að koma vegum sem mest niður á láglendi auk þess sem við styttum samgönguleiðir. Spurningin er hvernig við getum nálgast þessi markmið sem fyrst og á sem ódýrastan hátt.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra:

Hefur komið til álita að tengja norður- og suðurhluta Vestfjarða með jarðgöngum milli Ísafjarðar og Kollafjarðar í stað jarðganga undir Hrafnseyrarheiði?

Hver yrði munur á vegalengd í jarðgöngum ef leiðin Ísafjörður–Kollafjörður yrði valin í stað ganga undir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði?

Hversu miklu lengri yrði leiðin milli Patreksfjarðar og Ísafjarðarbæjar með því móti en sú leið sem nú er fyrirhuguð yfir Dynjandisheiði og undir Hrafnseyrarheiði?

Hvað mundi sá kostur stytta mikið leiðina Ísafjarðarbær–Reykjavík?

Hvaða hlutar leiðarinnar:

a. Patreksfjörður–Reykjavík,

b. Ísafjörður–Reykjavík,

c. Patreksfjörður–Ísafjarðarbær,

yrðu í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli?

Hvaða hlutar áðurnefndra leiða yrðu í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli miðað við núverandi áætlanir í samgöngumálum Vestfjarða?