133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

samgöngubætur á Vestfjörðum.

537. mál
[15:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi var spurt: Hefur komið til álita að tengja norður- og suðurhluta Vestfjarða með jarðgöngum milli Ísafjarðar og Kollafjarðar í stað jarðganga undir Hrafnseyrarheiði?

Möguleika á jarðgöngum milli Ísafjarðar og Kollafjarðar var getið í jarðgangaáætlun sem tekin var saman hjá Vegagerðinni árið 2000 og ég lagði fyrir þingið á sínum tíma. Sá kostur er ekki á dagskrá. Gert er ráð fyrir að jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði sú tenging sem tryggir samgöngur á milli suður- og norðurhluta Vestfjarða.

Í annan stað er spurt: Hver yrði munur á vegalengd í jarðgöngum ef leiðin Ísafjörður–Kollafjörður yrði valin í stað ganga undir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði?

Jarðgöng undir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði yrðu um 4 km lengri en göng milli Ísafjarðar og Kollafjarðar.

Í þriðja lagi er spurt: Hversu miklu lengri yrði leiðin milli Patreksfjarðar og Ísafjarðarbæjar með því móti en sú leið sem nú er fyrirhuguð yfir Dynjandisheiði og undir Hrafnseyrarheiði?

Leiðin um Kollafjarðargöng yrði um 155 km lengri en ef farið væri á milli þessara staða í jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Í fjórða lagi er spurt: Hvað mundi sá kostur stytta mikið leiðina Ísafjarðarbær–Reykjavík?

Leiðin um Kollafjarðargöng yrði um 9 km styttri en núverandi leið um Vestfjarðaveg og 7 km styttri en leiðin um Djúpveg og fyrirhugaðan veg um Arnkötludal. Með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er leiðin um Vestfjarðaveg hins vegar 17 km styttri en leiðin um Kollafjarðargöng.

Í fimmta lagi er spurt: Hvaða hlutar leiðarinnar yrðu Í yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli?

Hér er reiknað með Kollafjarðargöngum en öðru óbreyttu. Svar mitt er það að á leiðinni Patreksfjörður–Reykjavík yrðu vegkaflarnir Kleifaheiði, Klettsháls, Hjallaháls, Svínadalur og Brattabrekka í yfir 200 m hæð. Á leiðinni Ísafjörður–Reykjavík eru kaflarnir á Eyrarfjalli, Hjallahálsi, Svínadal og Bröttubrekku yfir 200 m. Á leiðinni Patreksfjörður–Ísafjarðarbær yrði vegkaflinn Kleifaheiði, Klettsháls og Eyrarfjall í yfir 200 m hæð.

Í sjötta lagi er síðan spurt: Hvaða hlutar áðurnefndra leiða yrðu í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli miðað við núverandi áætlanir í samgöngumálum Vestfjarða?

Hér er reiknað með Arnarfjarðargöngum og vegi yfir Djúp og Gufufjörð, vegi yfir Arnkötludal og Djúpveg um Vatnsfjörð yfir í Mjóafjörð. Þar yrðu á leiðinni Patreksfjörður–Reykjavík Kleifaheiði, Klettsháls, Svínadalur og Brattabrekka í yfir 200 m hæð. Ísafjörður–Reykjavík um Vestfjarðaveg, þar yrðu Gemlufallsheiði, Dynjandisheiði, Svínadalur og Brattabrekka yfir 200 m. Leiðin Ísafjörður–Reykjavík um Djúpveg, þar yrðu Steingrímsfjarðarheiðin, Arnkötludalur, Svínadalur og Brattabrekka yfir 200 m. Patreksfjörður–Ísafjarðarbær, þar yrði vegkaflinn á Mikladal, Hálfdán, Dynjandisheiði og Gemlufallsheiði yfir 200 m yfir sjó.

Þarna er góð lýsing á því við hvað er að etja á vegakerfi Vestfjarða, hver fjallvegurinn af öðrum. Þess vegna er í þeirri samgönguáætlun sem hér liggur fyrir þinginu lögð svo rík áhersla á uppbyggingu vegakerfisins á þessum svæðum.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég segja það, af því að það var nefnt af hv. fyrirspyrjanda að Vinir Vestfjarða hefðu skrifað erindi um það að falla frá jarðgangahugmyndum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og fara þess í stað í Ísafjörð–Kollafjörð, að ég er ekki viss um að mikill vinskapur felist í þeim áformum. Það er óskhyggja um eitthvað allt annað en það að tengja saman byggðirnar á norður- og suðurfjörðum sem ég tel að sé skynsamlegasti kosturinn.

Að lokum þakka ég hv. fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér tækifæri til að fara yfir þetta. Svör mín tel ég að sýni svo að ekki fari á milli mála hversu mikilvægt það er að byggja upp vegakerfið á Vestfjörðum og ekki síst að leggja áherslu á tengingu suður- og norðurfjarða með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.