133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

393. mál
[16:01]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um þessar miklu og góðu stofnanir sem Landgræðslan og Skógrækt ríkisins eru og þau verkefni sem þar hefur verið unnið að.

Hv. þingmaður spyr: „Er unnið að sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins? Ef svo er, hvenær er stefnt að sameiningunni?“

Ég vil strax í upphafi segja að engin ákvörðun hefur enn verið tekin um sameiningu og þess vegna er engin dagsetning til. Því er til að svara að í landbúnaðarráðuneytinu hefur á undanförnum árum verið unnið mikið í stofnanaumhverfi ráðuneytisins og í kjölfar þeirrar vinnu gerðar róttækar breytingar á mörgum stofnunum landbúnaðarráðuneytisins með það fyrir augum að einfalda og hagræða starfsemi þeirra. Rétt er að rifja upp að með lögum nr. 71/2004 voru Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Garðyrkjuskóli ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins sameinuð í eina stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, sem starfar á nokkrum stöðum í landinu og er með aðalstöðvar sínar á Hvanneyri. Sömuleiðis var með lögum nr. 80/2005 sett á fót ný stofnun, Landbúnaðarstofnun, sem tók yfir starfsemi yfirdýralæknis, aðfangaeftirlits, plöntueftirlits, embætti kjötformanns og embætti veiðimálastjóra ásamt ýmsum verkefnum sem Bændasamtök Íslands höfðu haft með höndum. Landbúnaðarstofnun er með aðsetur á Selfossi þar sem ný og glæsileg aðstaða hennar var formlega tekin í notkun 26. október sl., eins og hv. þingmaður man. Mér er til efs að önnur ráðuneyti hafi unnið jafnmikið í sínu stofnanaumhverfi á síðustu árum eins landbúnaðarráðuneytið hefur gert til þess að hagræða og styrkja starfið.

Hvað varðar síðan hugmyndir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins hefur það mál verið í vinnslu í ráðuneytinu í langan tíma. Á það skal bent að sameining stofnananna hefur verið skoðuð af fyrirrennurum mínum í starfi, nokkrum landbúnaðarráðherrum. Niðurstaða hefur enn ekki fengist um að ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu. Enginn vafi er á að margt er líkt með starfsemi og hlutverki stofnananna, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hlutverk þeirra hafa reyndar líka verið að breytast. Bændurnir rækta skóginn í landshlutabundnum verkefnum, það voru verkefni ríkisins áður, og bændurnir eru landgræðslubændur. En það er jafnljóst að ýmislegt er það sem aðskilur hlutverk þeirra og störf.

Til að fá sem gleggsta mynd af stöðunni skipaði ég haustið 2005 nefnd þar sem í áttu sæti fulltrúar beggja stofnananna, auk rektors Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri aðila, sem höfðu það hlutverk að kanna hvort og þá með hvaða hætti sameina mætti stofnanirnar. Starfi nefndarinnar lauk ekki fyrr en vorið 2006 enda um að ræða viðamikið verkefni sem nefndin vann með ágætum. Nefndin bendir á kosti og jafnframt galla við sameiningu stofnananna og ljóst er að að mörgu þarf að hyggja áður en til sameiningar kemur. Rétt er að benda á að báðar stofnanirnar standa þjóðinni ákaflega nærri og skoðanakannanir hafa sem betur fer sýnt að báðar njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Sem dæmi má nefna að einstaklingar hafa einnig ánafnað á dánarbeði öllum eigum sínum til þessara ríkisstofnana til að vinna móður jörð mikið gagn sem einnig kann að þykja skrýtið þegar ríkið á í hlut en sýnir í raun hug landsmanna til starfa þessara fyrirtækja í 100 ár.

Báðar eru þessar stofnanir rótgrónar stofnanir sem fagna 100 ára afmæli um þessar mundir, enda upphaflega ein og sama stofnun sem þó þótti rétt að aðskilja í tvær. Báðar hafa þær skilað frábæru verki, þjóðskógar risið upp í öllum landshlutum opnir almenningi þar sem ótrúlegur fjöldi landsmanna nýtur nú útivistar við skóginn og vistkerfi hans og heilu sandsvæðin og hundruð kílómetra af rofabörðum hafa verið grædd upp og varnað því að heilu byggðarlögin hafi farið undir sand svo dæmi séu tekin úr starfseminni.

Niðurstaða mín er sú að gefa málinu enn frekari tíma vegna þess, og það vil ég árétta, að vanda verður allan undirbúning og vera viss um að sameining þeirra skili jafngóðum eða betri árangri en starfsemin gerir í dag. Það þarf að vanda allt í þessu sambandi og menn þurfa að ná samstöðu innan beggja fyrirtækjanna og ganga í verkið af heilum hug þegar búið er að baka það brauð. Ég segi við hv. þingmann að mér þótti, þegar þetta var ekki lengra komið hjá mér á haustþingi, erfitt að fara með það inn á svo stutt þing. Þessi verkefni eru því enn á dagskrá og bíða næsta þings.