133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

393. mál
[16:08]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna á ný og það sem hann nefndi hér margt. Fyrir liggur að þetta er ekki einfalt verk. Hins vegar er alltaf slæmt þegar stofnanir búa við langtímaóvissu og umræðu eins og þessa. Það veldur oft óróa innan fyrirtækja, áhyggjum starfsfólks o.s.frv. Menn þurfa því auðvitað að komast að niðurstöðu um það.

Margt ber að hafa í huga sem hefur breyst, eins og hv. þingmaður kom inn á, bæði landshlutabundnu verkefnin og landgræðslubændurnir sem hafa tekið við framkvæmdarþætti á mörgum sviðum í landinu og er eðlilegt. Þess vegna eru þær stofnanir meira rannsóknastofnanir og eftirlitsstofnanir og gegna kannski enn þá stærra lykilhlutverki en áður til þess að gefa bæði ráðgjöf og fylgjast með landinu. Hlutverkið hefur breyst. Svo er náttúrlega kominn hinn stóri Landbúnaðarháskóli sem er í gríðarlegri þróun. Þar var ég staddur í morgun og mikill áhugi er á því námi, þar er akademía og vísindalegt umhverfi að verða og skólinn eflist með hverju missirinu. Þar eru stór og mikil áform. Þessir þrír aðilar komu að umræðunni og mikilvægt að flana ekki að því, eins og ég sagði.

Svo eru náttúrlega tilfinningar í þessu. Mikilvægustu staðir Skógræktarinnar eru hjartastaðurinn Hallormsstaður og Austurland, Gunnarsholt með sína sterku sögu og mikla starf sem þar hefur verið unnið. Það er því margs að gæta. Þessi fyrirtæki standa bæði sterkum fótum, vinna mikið og gott starf. Þau þurfa því ekki að óttast um vilja þings eða þjóðar en það er auðvitað mjög mikilvægt sem fyrst á næsta kjörtímabili að koma þessu í örugga höfn þannig að óvissu sé eytt og menn viti hvert stefnt er.