133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

ummæli þingmanns um útlendinga.

[10:35]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Á fimmtudag fyrir sléttri viku spannst hér umræða um málefni útlendinga í tilefni af gagnrýni hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur á hina ógeðfelldu innflytjendastefnu Frjálslynda flokksins. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu sem þó væri fullt tilefni til. Hins vegar vöktu sérstaka athygli í umræðunni yfirlýsingar hv. þm. Valdimars Leós Friðrikssonar um meintar handtökur þekktra hryðjuverkamanna á Keflavíkurflugvelli. Í umræðunum sagði hv. þingmaður m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Gerir hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sér grein fyrir því að nú þegar er farið að handtaka á Keflavíkurflugvelli þekkta hryðjuverkamenn?“ Síðan sagði hv. þingmaður: „Þú vilt fá sem sagt þekkta hryðjuverkamenn inn í landið? Þú vilt kannski bjóða þeim heim til þín?“ Og beindi orðum sínum þar til hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur.

Þetta vakti að vonum athygli og leitaði fréttastofa sjónvarps skýringa hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli. Í fréttinni sagði m.a., með leyfi forseta:

„Og vegna þessara ummæla Valdimars er rétt að taka það fram að Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kannast ekki við að þekktir hryðjuverkamenn hafi verið handteknir á Keflavíkurflugvelli. Hann sagðist ekki vita til hvers Valdimar Leó er að vísa í þessu sambandi.“

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að innan Frjálslynda flokksins séu menn með mikla sérfræðikunnáttu um þekkta hryðjuverkamenn og virðist sú þekking heldur fara vaxandi með hverjum degi. Þess vegna hef ég beðið í ofvæni í heila viku eftir því að hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson eða aðrir þingmenn Frjálslynda flokksins upplýsi bæði þing og þjóð um þá hryðjuverkamenn sem handteknir hafa verið á Keflavíkurflugvelli og svo leynt hefur farið að jafnvel yfirmaður lögreglumanna á vellinum, sjálfur lögreglustjórinn, hefur ekki hugmynd þar um. Þess vegna geri ég þá kröfu að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins skýri frá því hér og nú hvaða þekktu hryðjuverkamenn hafa verið handteknir á Keflavíkurflugvelli og hvenær.